top of page
Search

Framboðslisti Hugins 2022-2023

Updated: Apr 25, 2022

Hér má sjá framboðslista Hugins 2022-2023


Inspector/Inspectrix Scholae - Forseti


Birgir Orri Ásgrímsson

Kæru MA-ingar,

Ég heiti Birgir Orri Ásgrímsson og er núna í

vor að ljúka mínu öðru ári á mála- og menningarbraut og ég er að bjóða mig fram í stöðu Inspector scholae veturinn 2022-2023.

Frá því að ég steig fyrst fæti hingað í MA var ég staðráðinn í því að taka eins mikinn þátt í félagslífinu og ég gat, það var jú Sverrir Páll sjálfur sem sagði að ef væri ekki fyrir félagslífið þá væri MA bara einhver skóli. En á mínum tveimur árum hér hef ég hjálpaði til við að setja upp báðar sýningar LMA og núna í vor sem sýningarstjóri. Ég ritaði fundi Málfó og stóð uppí pontu sem Morfísari. Ég var toppmaður á árshátíðinni, meðlimur skreytó og ég hef ósjaldan spilað tónlist fyrir ykkur í löngu sem formaður TæMA.

Í verkahring forseta Hugins er jú að bera ábyrgð á öllu því sem skólafélagið gerir, bera ábyrgð á öllum þeim viðburðum sem fara hér fram og með þá reynslu sem ég hef hlotið af félagslífinu að baki tel mig full tilbúin í það starf. Ég mun passa upp á það að næstu kynslóðir MA-inga fái svo sannarlega að upplifa Menntaskólann á Akureyri eins og hann á að vera.

Setjið X við Birgi í forseta Huginsstjórnar í komandi kosningum.


Þorbjörg Þóroddsdóttir

Elsku bestu menntskælingarnir mínir,


Ég heiti Þorbjörg, ég er í 2.L og ég elska MA. Alveg svona vandræðilega mikið. Ég elska gleðidaga, ég elska kvöldvökurnar, ég elska undirfélögin og að sitja fundi með þeim - ég elska þetta allt. Ég elska líka að þegar að ég var lítill nýnemi og þorði næstum ekki að anda vegna covids, þá voru rafrænar kvöldvökur. Ég elska það að árshátíðin var haldin í ár, þótt það hafi verið eftir frestanir og vesen. Ég elska það að fólkið sem stendur að félagslífi skólans gefst ekki upp. Ég tel það einmitt vera eina af mínum dyggðum - að gefast ekki upp. Núna þegar heimsfaraldrinum er að ljúka og allt er að opnast er mikilvægt að við keyrum á félagslífið af fullum krafti, og ég er tilbúin að gera það. Ég vil opna stjórnun og skipulag félagslífsins meira - svo að allir sem vilja geti lagt sitt af mörkum.


Í gegnum árin mín í Menntaskólanum hef ég tekið þátt í ótal undirfélögum og nefndum, og þar má helst nefna VíMA, BlóMA, BókMA, MúMA, skreytingarnefnd og auðvitað sat ég sem forseti PrideMA. Við í PrideMA héldum dragkeppni í samstarfi við Hinsegin VMA, komum með fornafnafræðslu inn í alla fyrstu bekkina í MA, nokkra þriðjubekki og fórum með hana á kennarafund, sátum jafnréttisráðsfundi og héldum gleðidaga. Þetta starf í PrideMA kenndi mér margt um félagslífið í MA og sýndi mér líka hvað mætti gera betur.


Ég er ekki hrædd við að taka ákvarðanir. Ég elska að hafa skipulag á hlutunum (og er með vandræðilega mörg google sheets skjöl í þeim tilgangi). Ég veit að ég hef bæði reynsluna og getuna í þetta starf - og ég veit að ef að þið kjósið mig sem forseta Hugins munuð þið ekki verða vonsvikin. Ég veit að ef að ég verð kosin verður komandi skólaár betra en nokkur önnur.


Kosningakveðjur til ykkar elsku dúllurnar mínar,

Þorbjörg xx




Exuberans Inspector/Inspectrix - Varaforseti


Kolbrá Svanlaugsdóttir

Sælir kæru menntskælingar.

Ég heiti Kolbrá Svanlaugsdóttir og ég hef ákveðið að gefa kost á mér í embætti Varaforseta Huginsstjórnar skólaárið 2022-2023. Ég er að ljúka öðru ári á Raungreina- og tæknibraut. Eins og svo margir aðrir valdi ég MA fyrir félagslífið og hef fylgst vel með því seinustu tvö ár og mætt á flestalla viðburði á vegum skólans. Ég tel mig hafa góða sýn á félagslífið og hvernig það á að vera og er því meira en tilbúin að hjálpa til við að halda því uppi og rækta það.

Hlutverk Varaforseta er að vera staðgengill annarra félagsmanna og að sjá um markaðssetningu viðburða og samfélagsmiðla. Ég tel mig fullhæfa í það, ég er fljót að læra, mjög vandvirk og tilbúin í að stökkva í nánast hvaða verkefni sem er og þess vegna held ég að fjölbreytileikinn henti mér vel.

Ég veit að ég mun sinna stöðunni vel ef ég fæ tækifæri til og vonandi treystið þið mér líka og setið X við Kolbrá í embætti Varaforseta.



Kristína Marsibil Sigurðardóttir Geirþrúðardóttir

Góðan og blessaðan

Ég heiti Kristína Marsibil Sigurðardóttir Geirþrúðardóttir og er að bjóða mig fram í varaforseta Huginns eða Exuberans inspector/inspectrix Ástæða framboðs míns er sú að mig langar að halda áfram á þessari braut sem seinasta stjórn hefur verið á. Það eru auðvitað hlutir sem hægt er að breyta og bæta og mun ég leggja mig alla fram um að svo verði ef yrði ég kosinn. En þar sem þetta er nú kynningartexti þá ætla ég að segja þér, elskulegi lesandi, meira um sjálfan mig.

Ég er 1 af 4 systkynum og hef skringilega gaman af því að hekla, þrátt fyrir að kunna aðeins eitt spor. Ég er á öðru ári á sviðslistarbraut og eins og nafn brautarinnar gefur til kynna þá er ég mikill sviðslistar lúði. Ég veit ekkert betra en að fara inn í leikhús og sitja í stólunum þar eða jafnvel á sviðinu, og bara vera. Það er eitthvað svo rólegt en kaótískt á sama tíma. Ég drekk kaffið mitt svart og elska snjó, það er að segja þegar ég er ekki að aka. Þetta seinasta ár hef ég verið stofnandi og þar með forseti BókMa eða bókafélags MA. Ég stofnaði félagið í tilraun til að vekja áhuga á hvers lags áhugalestri. Þetta hefur verið krefjandi en gefandi á sama tíma. Núna eru 13 félagar í félaginu og vonandi fer það vaxandi. Ef ég yrði kosinn þá myndi ég láta kjósa í nýjann forseta og einbeita mér alfarið á Huginn.

Virðingafyllst

Kristína



Þorsteinn Jakob Klemenzson

Helo,


Þorsteinn heiti ég og gef ég kost á mér í varaforseta Huginsstjórnar (Exuberans inspector) skólaárið 2022-2023. Þessi tvö ár sem ég hef verið í MA hafa verið viðburðarík og hef ég tekið þátt í félagslífinu á fjölbreyttan hátt. Ég hef spilað á söngvakeppnum, tekið þátt í LMA, setið í stjórn TóMA og fest mig í búri fyrir góðan málstað.


Félagslífið hérna í MA er nefnilega það sem gerir MA að MA og mig langar að leggja mitt að mörkum við að gera félagslífið okkar enn betra. Kæmist ég í Huginsstjórn myndi ég beita mér fyrir því að opna félagslífið og gera það aðgengilegt öllum vegna þess að mig langar að allir í skólanum fái tækifæri á því að taka þátt í félagslífinu á sínum forsendum.


Sem varaforseti væri það á minni ábyrgð að hoppa inn og gegna þeim embættum hugins sem embættismenn hafa, af einhverjum ástæðum, ekki tök á að gera sjálfir, og það er eitthvað sem ég treysti mér hundrað prósent í að gera.


Svo langar mig svona rétt í lokin að minna ykkur á að ég er skilnaðarbarn. Það tengist framboðinu mínu svo sem ekki neitt en mig langaði bara aðeins að guilt trippa ykkur í að kjósa mig.


Þannig að ef þú vilt styðja einmana skilnaðarbarn í leit að hamingju settu þá X við Þorstein í varaforseta.




Quaestor scholaris - Gjaldkeri


Anna Hlín Guðmundsdóttir

Sælir kæru samnemendur,

Ég heiti Anna Hlín Guðmundsdóttir og er í 2.U á heilbrigðisbraut. Ég gef kost á mér í embætti gjaldkera, Quaestor scholaris, Huginsstjórnar fyrir næstkomandi skólaár.

Fyrsta árið mitt einkenndist mjög mikið af covid en á öðru ári tók ég þátt í leikmyndateymi LMA og fannst það mjög gaman. Mig langar að taka meiri þátt í félagslífinu og hvetja aðra MA-inga til þess að taka þátt í félagslífinu, því skólinn býður upp á svo margt. Sem gjaldkeri vil ég passa að peningunum ykkar sé eytt skynsamlega og að allir nemendur fái að njóta góðs af því. Það fylgir því mikil ábyrgð að vera í stjórn Hugins og ég tel mig mjög hæfa til þess að gegna embætti gjaldkera. Ég á auðvelt með samskipti og er mjög skipulögð sem eru kostir sem ég held að muni nýtast mér vel í starfi gjaldkera.

Allt sem ég tek mér fyrir hendur geri ég vel svo ég vona að þið treystið mér fyrir þessu ábyrgðarfulla starfi og setjið X við Önnu Hlín í gjaldkera <3



Hekla María Kristjönudóttir

Hæhæ elsku samnemendur,

Ég heiti Hekla María Kristjönudóttir, ég er að ljúka öðru árinu mínu á félagsgreinabraut. Ég er að bjóða mig fram sem gjaldkera, Quaestor Scholaris, í stjórn Hugins skólaárið 2022 – 2023. Gjaldkerastaðan er gríðarlega mikilvægt hlutverk og ég tel mig vera tilbúna til að taka þetta hlutverk á mig. Ég hef kynnt mér starfið og það sem því fylgir og er mjög spennt að gefa kost á mér í það.

Persónulega valdi ég að koma í MA fyrir félagslífið. Ég hef verið alla mína ævi frekar félagslynd. Ég kom í skólann þegar covid var í hámarki og var það ótrúlega leiðinlegt að geta ekki verið með neitt félagslíf í skólanum. Markmið mitt, ef ég verð kosin sem gjaldkeri, er að gefa MA-ingum félagslífið sem þau eiga meira en skilið eftir seinustu ár. Ég vil nýta peningana okkar vel, búa til raunhæfa áætlun og taka skynsamar ákvarðanir um hvert peningarnir okkar fara. Ég vil að þið sem nemendur getið treyst á það að peningarnir ykkar séu í góðum höndum. Ég vil stefna að því að við höldum eins marga viðburði og hægt er. , Það hefur svo ótrúlega mikil áhrif á andrúmsloftið í skólanum þegar við komum öll saman, kynnumst og höfum gaman. Ég vil halda í hefðirnar okkar og halda áfram að búa til nýjar hefðir. Mér þykir ótrúlega vænt um þennan skóla og nemendurna innan hans og vil að framhaldið verði ekkert nema skemmtilegt.

Ég treysti mér fullkomnlega í þessa stöðu og mun ég gera mitt besta að skapa æðislegt skólaár fyrir okkur öll. Setjið X - við Heklu Maríu í gjaldkera ef þú kæri kjósandi treystir mér fyrir því.

Veriði sæl með stæl.

Hekla María



Hjalti Karl Jónsson

Heil og sæl kæru samnemendur ég heiti Hjalti Karl Jónsson og ég er í 2.U á heilbrigðisbraut. Ég er að bjóða mig fram sem gjaldkeri skólafélagsins Huginn, Quaestor scholaris fyrir skólaárið 2022-2023.

Ég hef notið þess mjög að vera í MA og hefur sú reynsla náð að breyta álitinu mínu á samfélaginu. Þegar ég kom í skólann sem 16 ára samkynhneigður strákur frá Húsavík þá var ég mjög fljótur að setja fólk í ákveðin box. Ég trúði því að fólk sem passaði kannski ekki í ,,normið” myndu alltaf á einhvern hátt vera fyrir utan hópinn. En í raun þá get ég sagt að flestir MA-ingar eru nokkuð sama um þá hluti og í raun og veru getur hver sem er gert það sem þau ætla sér. Þegar ég áttaði mig á þessu fór ég að þora að sýna hvernig manneskja ég er og er nú að bjóða mér fram í starf gjaldkera Hugins eins og hver annar MA-ingur.

Ég trúi því að ég muni vera mjög ábyrg manneskja til að taka þetta mikilvægi starf skólafélagsins að mér. Ég hef mikin áhuga á fjármálum og er mjög góður með tölur. Í raun hef ég tölur í blóðinu því móðir mín vinnur sem aðalbókari hjá Norðurþingi ásamt systur minni sem er launafulltrúi sveitarfélagsins. Þær gætu þar með aðstoðað mig við að ná góðum tökum á fjárhagi félagsins. Þetta ætla ég að nýta til þess að hver og einn nemandi skólans geti upplifað frábært félagslíf í MA.

Mín ætlun er að passa upp á það að Huginn og undirfélög skólans geti gert sem mest og látið félagslíf skólans blómstra. Ekki mun ég neita ákveðnum félögum styrk eingöngu út af því að ég þekki ekki meðlimi þess. Því allir nemendur skólans eru mikilvægir og vill ég að allar raddir skólans fái áheyrn. Ef þið viljið eiga alveg gordjöss skólaár saman þá setjið þið X við Hjalta Karl og við ,,slay-um” þessa kosningu.



Þura Björgvinsdóttir

Sælir elsku samnemendur,

Þura Björgvinsdóttir heiti ég og er á öðru ári á raungreina- og tæknibraut. Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í stöðu gjaldkera Huginsstjórnar skólaárið 2022-2023, eða Quaestor Scholaris ef við viljum vera formleg.

Félagslíf og hefðir Menntaskólans hafa alltaf heillað mig og var það stór hluti af ákvörðun minni að koma í MA upprunalega, þess vegna er ég að bjóða mig fram í Huginsstjórn. Ég veit að ég get komið með ýmsa kosti inn í stjórnina og þá sérstaklega í gjaldkerann þar sem ég er ábyrg, metnaðarfull og hef áhuga á fjármálum (og ekki skemmir fyrir að ég sé X-ari). Ég vil leggja mitt af mörkum og passa að fjármálum skólans verði eytt skynsamlega og þannig að allir nemendur skólans myndu fá að njóta góðs af þeim.

Fráfarandi stjórn hefur staðið sig vel og ég yrði þakklát að fá að halda áfram þar sem þau hættu. Því vona ég að þið nýtið kosningaréttinn og setjið X við Þuru í gjaldkera.




Scriba scholaris - Ritari


Dögun Hallsdóttir

Sæl kæru samnemendur,

Dögun Hallsdóttir heiti ég og er í 2.A og ég er að bjóða mig fram í stöðu ritara huginsstjórnar. Ég viðurkenni það að þegar ég byrjaði í MA vissi ég ekki neitt í minn litla busa haus, ég lærði til dæmis ekki muninn á huginn og muninn fyrr enn að ég var sjálf kosin í muninn.

En síðan félagslífið kippti sér í gang er ég ekki búin að gera annað en að hamast í því. Ég var í LMA í bæði fyrsta og örðum bekk og svo er ég búin að vera uppsetningarstýra munins í vetur, og svo má auðvitað ekki gleyma að ég sé virkur forseti PitMA. Í 10. bekk var ég í ballnefnd og hélt 3 banger böll fyrir 1-7 bekk og finnst það vera mjög góð reynsla og tel mig meira en hæfa til að halda bussin árshátíðar ball fyrir ykkur á næsta ári þótt það muni líklegast ekkert toppa ballið í ár.

Ég valdi MA fyrir félagslífið sem það hefur upp á að bjóða og það líður ekki einn dagur hjá sem ég sé eftir því, það væri heiður og forréttindi að fá að taka þátt í því að skipuleggja og sjá um elskulega félagslífið okkar fyrir komandi kynslóðir MA-inga.

Það væri sannur heiður að fá að vera ritarinn ykkar næsta vetur og ég vona innileg að þið setjið X við Dögun <3



Guðrún María Aðalsteinsdóttir

Sælir elsku samnemendur,

Guðrún María heiti ég og er á öðru ári á náttúrufræðibraut. Í þessum kosningum gef ég kost á mér í stöðu ritara, Scriba scholaris, Huginstjórnar fyrir skólaárið 2022-2023.

Ég hef æft á píanó í 10 ár og golf í 12 ár, ásamt því að sinna skólanum með prýði. Ég á mér einnig listræna hlið og elska allt frá teiknun og hönnun yfir í hekl, prjón og fatahönnun. Ég er því nokkuð vön því að skipuleggja tímann minn skynsamlega og er algjör dugnaðarhestur í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Ég var með hæstu meðaleinkunn í fyrsta bekk í MA, aðallega þökk sé minni skotheldu skipulagsdagbók.

Þegar ég kom í MA var ég meira en til í félagslífið í skólanum, árshátíðina og kvöldvökur, en þeirri hugmynd var skotið niður frekar fljótt vegna kórónuveirufaraldursins. Þessi seinustu tvö ár fóru mikið í lærdóm og mér fannst við gleyma fljótt hversu mikilvægt félagslífið er. Því vil ég taka næsta ár með trompi og leyfa félagslífinu ykkar og mínu að blómstra. Ég yrði því meira en ánægð að fá að taka þátt í skipulagningu árshátíðarinnar á seinasta skólaári mínu hér í MA.

Ég er ábyrg, hugmyndarík og tek skynsamar ákvarðanir. Ég skil fullkomlega þá ábyrgð og stöðu sem ritarar gegna og treysti mér 100% í verkið. Ef þú vilt hafa brjálaðslega gott skipulag á næsta skólaári, settu X við Guðrúnu Maríu í stöðu ritara Huginstjórnar <3




Erus gaudium - Skemmtanastjóri/stýra


Bergþór Bjarmi

Góða Kvöldið.

Ég Bergþór Bjarmi ætla að gef kost á mér í huginnstjórn sem skemmtunarstjóri, ég tel það vera tilvalið þar sem ég hef mikin áhuga á félagslífinu í MA, ég tel mig vera réttu manneskjuna til að rífa félaglífið í gang og skipulegja fábæra viðburði á næstkomandi skóla ári, covid hefur verið hamla skemmtunar líf MA síðustu 3 skóla ár en nú þegar covid er búið er mjög mikilvægt að kjósa skemmtunarstjóra sem þið treystið til að sinna starfi sínu vel og upphefja félagslífið í MA og gera það jafn frábært ef ekki betra en það var fyrir covid.







Karítas Embla

Sælir kæru menntskælingar.


Ég heiti Karítas Embla og er í 2.U. Ég er að gefa kost á mér í stöðu skemmtanastýru (Erus Gaudium) Huginsstjórnar, skólaárið 2022 – 2023.


Helsta ástæða þess að ég ákvað að sækja um í MA var meðal annars vegna þess hversu góða hluti ég hafði heyrt um félagslífið. Þó að fyrsta árið mitt í MA hafi verið á tímum covid, sé ég sko alls ekki eftir þeirri ákvörðun. Þetta hafa verið 2 skemmtilegustu árin mín og langar mig þess vegna að gera allt sem ég get til að gera félagslífið ennþá meira og skemmtilegra svo allir geti notið þessara ára í botn.


Sem skemmtanastýra mun ég leggja mig fram við að hafa geggjaðar og fjölbreyttar kvöldvökur, alvöru bangers í löngu og frábært félagslíf. Ég á auðvelt með að vinna með fólki, ásamt því að vera skemmtileg og þegar ég tek mér eitthvað fyrir hendur vil ég alltaf gera það 100%.


Ég treysti mér mjög vel til að sinna þessu embætti og ég vona að þú gerir það líka. Til að gera næsta skólaár eftiminnilegt og skemmtilegt settu X við Karítas í skemmtanastýru!



Sölvi Jónsson

Ég heiti Sölvi Jónsson, er að ljúka öðru ári á raungreinabraut og býð mig fram í skemmtanastjórann (Erus Gaudium).

Þegar ég byrjaði í MA þekkti ég engan og ákvað því að mitt mottó yrði að segja “já” við öllu, sama hvað. Það svínvirkaði og varð til þess að ég er búinn að taka mikinn þátt í félagslífi skólans. Ég hef verið virkur í AMMA og verið kynnir bæði á kvöldvökum og söngkeppninni. Og veit því vel hvað þarf í þetta starf, hvað er hægt að gera betur og mun ég sinna því af ferskleika og krafti. Sem betur fer eru engar takmarkanir á félagslífinu núna og er það á ábyrgð næstu stjórnar að setja markið hátt og láta næsta skólaár verða gjörsamlega brenglað!


Sölva í skemmtanastjórann - af hverju ?

Jú, ég er:

  • metnaðarfullur

  • skapandi og lausnamiðaður

  • kem hlutum í verk

Gerum næsta ár geðveikt! Setjum X við Sölva!





Collega scholae - Meðstjórnandi


Kristín Vala Jónsdóttir

Sælir kæru MA-ingar

Ég heiti Kristín Vala Jónsdóttir og er í 2.G á félagsgreinabraut og gef ég kost á mér sem meðstjórnandi Huginnsstjórnar skólaárið 2022-2023. Ég hafði alltaf heyrt og séð hvað félagslífið í MA væri geggjað og var það ein ástæða fyrir því að ég flutti til Akureyrar og hóf skólagönguna mína í MA. Ég tel stjórn Hugins vera mjög mikilvæga fyrir félagslíf skólans og hefur mig alltaf langað til að taka þátt í því. Gott félagslíf gerir skólagönguna svo miklu skemmtilegri og langar mig þess vegna kæru MA-ingar að gera næsta skólaár sturlað og viðburðaríkt og leggja mig alla fram í að gera okkar félagslíf ennþá betra.

Að vera meðstjórnandi felst í því að vera tengiliður Hugins við öll undirfélögin og einnig að passa að gott samstarf sé þeirra á milli. Starf meðstjórnanda krefst mikillar vinnu og tel mig hafa alla burði til að geta sinnt þessu starfi með miklum sóma þar sem ég er mjög skipulögð og metnaðarfull.

Ef þú vilt geggjað skólaár settu X við Kristínu Völu í meðstjórnanda



Kristófer Daði Davíðsson

Ég heiti Kristófer Daði Davíðsson ég ætla að gefa í Huginn stjórn sem meðstjórnandi afþvi eg hef heyrt að það sé auðveldasta jobið ég hef mikið gaman af félagslífi og er stemningsmaður ég er lika mjög efnilegur að grilla pylsur endilega kjósið rett ef ykkur langar í GÓÐAR pylsur tzakk.















Natalía Hrund Baldursdóttir

Sælir kæru MA-ingar!

Ég heiti Natalía Hrund Baldursdóttir og er á öðru ári heilbrigðisbraut. Ég er að bjóða mig fram í embætti meðstjórnanda, Collega Scholae, huginstjórnar fyrir komandi skólaár.

Þegar ég sótti um í MA var félagslífið eitt af því sem heillaði mig við skólann. Því miður hafa seinustu tvö ár einkennst gríðarlega af covid en nú þegar allt er loksins á uppleið getur félagslíf komandi skólaárs orðið það besta hingað til!

Vegna ýmissa takmarkanna hef ég ekki tekið jafn virkan þátt í félagslífinu og ég hefði viljað en ég vil að nemendur næsta árs upplifi MA til hinns fyllsta.

Aðalhlutverk meðstjórnanda er að vera tengiliður hugins við undirfélögin og tryggja að gott samstarf sé þar á milli. Ég geri mér grein fyrir því að starf meðstjórnanda krefst vinnu og tel ég mig vera færa í það þar sem ég er bæði dugleg og skipulögð.

Ég vil gera mitt allra besta til þess að efla skólann enn meira og gera næsta ár æðislegt <3

Fyrir skemmtilegt og ógleymanlegt ár, settu X við Natalíu í meðstjórnanda!





Erus pactum - Markaðsstjóri/stýra


Hildur Heba Hermannsdóttir

Sæl elsku skólasystkini

Ég heiti Hildur Heba Hermannsdóttir og er á öðru ári á félagsgreinabraut. Ég er að bjóða mig fram í embætti Markaðsstjóra/stýru eða Erus Pactum Huginsstjórnar fyrir næstkomandi skólaár.

Hugmyndin um að vera í stjórn skólans hefur alltaf heillað mig og tel ég tímann vera núna. Við vitum öll að það er félagslífið í skólanum sem er það mikilvægasta, en það er einmitt það sem heillaði mig við skólann eins og örugglega hjá mörgum öðrum. Ef ég fengi það tækifæri að sitja í stjórn skólans, myndi ég sjá til þess að viðhalda öllu því félagslífi og hefðum skólans sem nú eru í gildi.

Starf Markaðsstjóra/stýru Huginsstjórnar felst t.d. í því að halda utan um eignir skólafélagsins ásamt því að sjá um skipulag og framkvæmd fjáraflana. Ég tel mig fullfæra í þetta verk þar sem ég er mjög skipulögð, metnaðarfull og er meira en tilbúin í það að sinna starfi markaðsstýru.

Ég treysti mér fullkomlega í þetta verk og vona að þú gerir það líka, svo endilega settu X við Hildi í Erus Pactum!



Telma Ósk Þórhallsdóttir

Sælt veri fólkið!


Ég heiti Telma Ósk Þórhallsdóttir og er á öðru ári á raungreina- og tæknibraut. Ég er að bjóða mig fram í embætti markaðsstýru (Erus Pactum) Huginsstjórnar fyrir komandi skólaár.


Við erum náttúrulega öll komin upp í kok að því að það sé alltaf eitthvað sem trufli skólaárið og félagslífið en sem betur fer verður næsta skólaár ekki svoleiðis. Vonandi fáum við ótruflað félagslíf, félagslíf sem mörg okkar hafa ekki fengið að upplifa að fullu. Og eftir að hafa fengið smá smakk af því við árshátíðina, þá veit ég ekki með ykkur en ég get að minnsta kosti ekki beðið.


En til þess að komandi skólaár verði eins frábært og það getur mögulega orðið þá þarf tvennt: góða Huginsstjórn og (mikla) peninga. Ég tel mig fylla í bæði boxin en sem markaðsstýra myndi ég fara með yfirumsjón samninga og samningagerða, t.d. við styrktaraðila. Svo er auðvitað menningarferðin (því jú! Hún mun verða á næsta skólaári!) og það þarf jú að fá djúsí díla hjá öllum þeim fyrirtæki sem munu sjá okkur fyrir afþreyingu og ekki nóg með það því sem markaðsstýra myndi ég einnig sjá um að niðurgreiða ferðina (því við erum jú langflest bara fátækir námsmenn).


Sem markaðsstýra Huginsstjórnar myndi ég sjá til þess að allir þeir djúsí dílar sem MA hefur upp á að bjóða væru á samningarborðinu. Því, kæru MA-ingar, leita ég til ykkar, til að treysta mér fyrir embætti markaðsstýru (og svala þorsta mínum fyrir völdum) og ég heiti því, kæru menntskælingar, að næsta ár verður það skólaár sem skráð verður í sögubækurnar sem besta skólaár MA!


Setjið því X við Telmu í markaðsstýru í Huginsstjórn 2022-2023





Presidium discipulus - Forseti hagsmunaráðs


Elva Sól Káradóttir

Hæ kæru samnemendur

Ég heiti Elva Sól Káradóttir, ég er í 2.L og ég er að bjóða mig fram í forseta hagsmunaráðs eða Presidium Discipulus Huginsstjórnar 2022-2023. Ég hef aldrei verið jafn ánægð og þegar ég byrjaði í Menntaskólanum Á Ákureyri. Í grunnskóla fann ég aldrei sjálfa mig en hér á sviðslistabrautinni finn ég að ég á svo sannarlega heima hér.

Ég hef mikið tekið þátt í lífinu hér í MA, Ég tók þátt í LMA á seinasta ári og var þar í leikhóp. Ég var svo líka í PrideMa þar sem ég var samfélagsmiðlastýra og elskaði það mjög mikið. Í PrideMa vorum við með kynningar fyrir kennara og aðra bekki um fornöfn og transleika. Ég fór líka á fund með jafnréttisráði og var ekki hrædd að segja mínar skoðanir. Alveg síðan ég var lítil þá hefur mér fundist annara manna vellíðan alltaf skipta mestu máli og að öllum líði vel. Ekki síst í skólanum sínum.

Eftir að vera hér í MA þessi ár og að vera í PrideMa þá hef ég tekið eftir hvað ég hugsa mikið um vellíðan aðra og hvernig aðstöður fyrir nemendur eru hér í skólanum. Það sannarlega vantar breytingar sem ég mun taka fram á fundum, til dæmis að það vantar fleiri kynhlutlaus klósett og betri aðstaða fyrir nemendur sem hafa vandamál að stríða. Ég hef alltaf verið feimin að koma mínum skoðunum á framfæri en núna er ég sérstaklega tilbúin að leggja mig fram. Var ég búin að segja að ég er með rosalega réttlætiskennd? Ég er tilbúin að hlusta á ykkur, takast á við vandamálin og gera það almennilega og hugsa vel um hagsmuni ykkar allra.



Jóhann Gunnar Finnsson

Góða kvöldið.


Ég, Jóhann Gunnar, ætla að bjóða mig fram sem forseta hagsmunaráðsins. Ég er mikill ábyrgðarmaður og er jafnframt mjög heiðarlegur. Ég tel mig vera hæfann í þetta starf og mun ég sinna því vel ef að því kemur. Það sem ég mun leggja áherlslu á, á næsta skólaári, er að öll myndbönd frá öllum myndbandafélugum munu fá jafna ritskoðun. Að mínu mati vantaði dálítið upp á það á þessu skólaári en það vil ég bæta.







Marey Dóróthea

Hæ elsku samnemendur :)

Ég heiti Marey Dóróthea og er að klára annað ár á félagsgreinabraut. Ég býð mig fram í embætti Presidium discipulus (forseta hagsmunaráðs) í stjórn Hugins skólaárið 2022-2023. Ég er mjög góð í að vinna með öðru fólki og er mjög góð að vinna í liði eða hóp. Ég nota þennan styrkleika mikið í minni íþrótt en ég hef æft fótbolta mjög lengi. Ég held að þessi styrkleiki minn geti nýst mér mjög vel sem forseti hagsmunaráðs við að vinna að hagsmunum nemenda.

Af hverju ættuð þið að kjósa mig sem forseta hagsmunaráðs?

Hagsmunir nemenda og jafnrétti skipta mig miklu máli og ég vil leggja mig fram um að bæta umhverfi og jafnrétti meðal nemenda. Ég vil að nemendum líði vel í skólanum og að þeim líði vel með námið sitt. Mig langar að vekja athygli á því álagi sem námið getur lagt á okkur og finna leiðir til að draga úr álagi, styðja við nemendur sem finna fyrir miklu álag og bæta líðan nemenda. Ég sjálf hef kvíða og kvíðinn minn eykst mikið þegar það er alltof mikið álag. Ég veit að margir aðrir nemendur ganga í gegnum það sama og þá er gott að geta leitað til þeirra sem eru í hagsmunaráðinu. En ég vil að hagsmunaráðið sé traustur staður fyrir nemendur að leita til og það er mikilvægt að í hagsmunaráðinu séu nemendur sem skilja það álag sem hlutir eins og kvíði geta valdið. Covid hefur líka haft mikil áhrif á líðan nemenda og þess vegna er hagsmunaráðið enn þá mikilvægara en áður. Mér persónulega finnst líka mjög mikilvægt að nemendur viti af hagsmunaráðinu og hvert hlutverk þess er. Þess vegna vil ég leggja áherslu á að auglýsa hagsmunaráðið betur, kynna betur fyrir hvað það stendur og hvað það gerir. Ég veit að ég mundi geta stjórnað þessu vel og látið ykkar hagsmuni skipta sem mestu máli á næsta skólaári.

Ef þið viljið að ykkar hagsmunir skipta máli og settir í forgang á næsta skólaári settu þá X við Marey í forseta Hagsmunaráðs! Peace out.












1,091 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page