Search
  • Skólafélagið Huginn

KVIKMYNDAGAGNRÝNI EFTIR TEIT INGVARSSON

Eitt orð Það er orð sem er allra manna vörum þessa dagana. Eitt orð, sem sumir segja að hafi breytt því hvernig við horfum á kvikmyndir. Avatar. Já, gott fólk, ég er að sjálfsögðu að tala um myndina Avatar, nýjasta verk ákveðins leikstjóra að nafni James Cameron. James Cameron er einn þekkasti leikstjórinn innan kvikmyndabransans, og hefur m.a. leikstýrt myndum á borð við The Terminator, Aliens og Titanic, sem allar hafa notið mikilla vinsælda um allan heim. Myndin Avatar gerist árið 2154 á hinni fjarlægri plánetu Pandóru. Þar hefur ákveðið fyrirtæki frá Jörðinni, með aðstoð málaliðahers, komið sér upp bækistöð, til að grafa eftir sjaldgæfum málmum. Pandóra er þakin gróskumiklum regnskógi, þar sem fjölskrúðugt, stórfenglegt, og hættulegt dýralíf reikar um, í skugga fjalla sem svífa í lausu lofti. Á Pandóru er einnig að finna hávaxnar, bláar vitsmunaverur sem kallast Na?vi. Aðalpersóna myndarinnar er jarðneskur, fyrrum hermaður að nafni Jake Sully (Sam Worthington), sem er lamaður fyrir neðan mitti. Hann er sendur til Pandóru, til að stýra svokölluðum ,,avatar?, eða ,,holdgervingi?, sem er blendingur milli mannveru og Na?vi. Hlutverk hans er að hafa samskipti við innfædda. Svo vandast málin þegar hann fellur fyrir Na?vi-konunni Neytiri (Zoe Saldana). Útlit og innlit Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar er minnst á Avatar er útlitið. Tæknibrellurnar eru með þeim bestu sem sést hafa á undanförnum árum, og þegar horft er á myndina í þrívídd, þá mun áhorfandanum líða nánast eins og hann væri sjálfur staddur á plánetunni. Við gerð myndarinnar var búið til heilt tungumál fyrir Na?vi-fólkið, og heilt vistkerfi fyrir plánetuna þeirra. Flestar lífverurnar á plánetunni gefa frá sér ljós í myrkri, sem eykur enn fegurð umhverfisins. Myndin er vel leikin, og vegna þess að Na?vi-fólkið lítur svo raunverulega út, þá er auðvelt fyrir áhorfendur að skynja tilfinningar þeirra. Ýmis atriði í myndini eru svo tilfinningalega áhrifamikil að auðvelt er að gráta yfir þeim, af þessari ástæðu. Boðskapurinn


Avatar sendir frá sér ýmis konar skilaboð.

Í fyrsta lagi, þá er myndin að mörgu leyti ádeila á græðgi, kynþáttafordóma, og stríð. Hið fremur kuldalega samband milli mannanna og Na?vi-fólksins á sér margar samsvaranir í mannkynssögunni, til dæmis við það þegar Evrópubúar settust að í Ameríku, á kostnað fólksins sem þar var fyrir. Einnig er mjög sterkur, umhverfisvænn boðskapur í myndinni. Na?vi-fólkið er nátengt sínu nánasta umhverfi, og mikil áhersla er lögð á mikilvægi þess að raska ekki jafnvægi náttúrunnar. Lífið á Jörðinni, hins vegar, er sagt vera deyjandi um það leyti er myndin gerist. Gagnrýni Avatar er ekki fullkomin mynd. Hún hefur ýmsa galla. Fyrst ber að nefna uppbyggingu söguþráðarins. Þegar hann er skoðaður kemur í ljós að hann er á köflum óþægilega kunnuglegur. Margt í sögunni er grunsamlega líkt og í öðrum myndum sem hafa svipaðan boðskap. Þar ber helst að nefna Pocahontas, The Last Samurai og Ferngully. Allar þessar myndir hafa það sameiginlegt að segja frá hvítum manni sem kynnist framandi menningarsamfélagi eða framandi veröld, og hrífst að lokum af henni. Ferngully inniheldur einnig umhverfisvænan boðskap, og það sem meira er, gerist í sjálflýsandi undraskógi, rétt eins og Avatar. Atburðarásin er líka ótrúlega fyrirsjáanleg, þ.e.a.s. ef horft er á eitthvað atriði í myndinni, þá er oftar en ekki hægt að vita nákvæmlega hvað muni gerast í næsta atriði. Svo eru það persónurnar sjálfar. Margar af þeim eru algjörar staðalímyndir, og það á að öllum líkindum þátt í fyrirsjáanleika myndarinnar. Í fyrsta lagi höfum við Jake Sully, sem er hin dæmigerða hetja sem er sendur af yfirmönnum sínum til að vinna eitthvað ákveðið verkefni, en heillast svo mjög af viðfangsefninu að honum snýst hugur. Í öðru lagi er það Neytiri, sem er hin dæmigerða dularfulla skógardís. Í fyrstu tekur söguhetjan (Í þessu tilviki Sully) lítið mark á henni, en þegar líður á söguna sannfærir hún hann, með visku sinni, um að breyta lífssýn sinni. Að lokum kviknar að sjálfsögðu ást milli þeirra. Í þriðja lagi, og síðast en ekki síst, þá er það Colonel Quaritch (Stephen Lang), sem er hinn dæmigerði, kaldhjartaði hershöfðingi, sem stendur á sama um alla aðra, og skiptir aldrei um skoðun um neitt. Jafnvel hreimurinn hans, sem er mjög sterkur Texas-hreimur, er dæmigerður fyrir slíka persónu. Niðurstaða Þrátt fyrir veikleika sína, þá er Avatar stórfengleg og tilfinningarík mynd, sem ætti að skemmta flestum sem á hana horfa. Sérstaklega þó ef hún er sýnd í þrívídd. Ég gef henni fjórar stjörnur af fimm.Í lokin

Sverrir Páll sem avatar!

0 views0 comments
  • Facebook
  • Instagram
Nemendafélag Menntaskólans á Akureyri
Eyrarlandsvegi 28
600 Akureyri