top of page
Search

FRAMBOÐSLISTI

a. Inspector scholae/ Formaður  



Freyja Steindórsdóttir

Ég heiti Freyja Steindórsdóttir og er 17 ára nemandi á tungumála-og-félagsgreinasviði. Ég hef tekið þátt í félagslífi skólans frá fyrsta degi, en sem dæmi má nefna, LMA, TæMA, TóMA, StemMA, og fleiri, auk þess að hafa verið formaður sjoppuráðs síðastliðinn vetur, hjálpað til við uppsetningu á síðustu tveim árshátíðum, aðstoðað nemendur í 1 og 2.bekk í þýsku og verið í stjórn kórsins frá því í 1.bekk en hann hefur náð gríðarlegum árangri. Ég hef einnig deilt reynslu minni á kvíða á vefnum kvidi.is og hef sinnt ýmsum verkefnum sem því tengjast. Ég er skipulögð, ábyrg og metnaðarfull og hefur reynsla mín hjálpað mér að þróa hæfni í samskiptum og samvinnu. Helstu áhugamál mín eru söngur og útsamur.



Björn Kristinn Jónsson

Kæru MA­ingar!

Ég heiti Björn Kristinn Jónsson og ég býð mig fram í embætti Inspector Scholae.  Mig hefur langað lengi til að verða formaður skólafélagsins og ég heiti ykkur að leggja mig allan fram í þetta ábyrgðarstarf. MA stendur á miklum tímamótum. Á næsta skólaári verður ný námsskrá innleidd og mikilvægt er að sjá til þess að félagslífið verði sterkara en aldrei fyrr.  

Ég hef tíma, áhuga og metnað fyrir því að viðhalda og efla enn frekar félagslífið hér í skólanum og tel mig hafa alla burði til að leiða stjórn Hugins á næsta skólaári. Í vetur hef ég verið formaður 3. bekkjarráðs og hefur það gefið mér mikla og dýrmæta reynslu sem mun nýtast mér vel sem Inspector.  

Ég yrði þakklátur fyrir ykkar stuðning og hvet ykkur til að setja x við Björn Kristinn í Inspector Scholae á þriðjudaginn. Endilega kíkið á mig á áróðursdaginn ef þið hafið einhverjar spurningar eða viljið ræða málin!



Ester Alda Hrafnhildar-Bragadóttir

Ester Alda Hrafnhildar Bragadóttir heiti ég og býð mig fram til Inspectrix Scholae fyrir komandi skólaár. Þó ég sé metnaðarfull, skynsöm, jákvæð og full eldmóðs þá er þó mikilvægast í mínu fari að ég get smitað aðra af krafti og vilja til metnaðarfullra verka. Samvinna er lykill að farsælli vinnu stjórnar ásamt trausti og vináttu svo henni gangi sem best. En stjórn þarf ekki bara að vinna vel sín á milli, því mikilvægast af öllu eru jú nemendur skólans. Stjórn þarf að hlusta, gleðja og vinna með nemendum til að félagslíf hámarki árangur. Á ykkur þarf að hlusta, á þig nemandi kær. Ef þú treystir mér fyrir þessu embætti verð ég traustsins verð.

b. Exuberans Inspector / Varaformaður  



Benjamín Viktor Baldursson

Ég heiti Benjamín Viktor og er í 3. A. Seinustu ár hef ég tekið virkan þátt í félagslífi skólans, svo sem Tónlistarfélaginu og Leikfélaginu auk annara félaga og þótt það mjög gefandi og lærdómsríkt. Ég er ári á eftir jafnöldrum mínum og ber því að verða fjögur ár af MA undir belti og tel ég að mín fjögur ár í menntaskólanum hafi veitt mér þá reynslu sem þarf til að sinna félagsstörfum vel og samviskusamlega. Því langar mig nú að taka þáttökuna upp á annað þrep og hef ég ákveðið að gefa kost á mér sem varaformaður Huginsstjórnar skólaárið 2016-2017.



Heiða Hlín Björnsdóttir

Ég heiti Heiða Hlín Björnsdóttir og býð mig fram í varaformann Huginsstjórnar veturinn 2016-2017. Mig hefur lengi langað að vera sýnilegri í félagslífinu en skort í það kjarkinn. Nú tel ég minn tíma vera kominn enda hef ég gaman af lífinu og reyni að nýta hvern dag til fulls. Ég er vön að gera allt af heilum hug og reyni alltaf að gera mitt allra besta í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur. Í körfuboltanum þarf maður að spila sem lið og hvað er Huginsstjórnin annað en lið sem keppist um að gera skólaárið sem minnistæðast fyrir alla? Ég hef góða reynslu af teymisvinnu og sat í þrjú ár í Ungmennaráði Akureyrar og reynslan sem ég öðlaðist þar mun nýtast mér í stjórnarstarfinu, til að ná fram því besta sem teymið hefur upp á að bjóða. Ég er skynsöm og biðla til ykkar að vera það líka. Ég ætla ekki að lofa ykkur gulli, góðgæti og gleðidögum – heldur lofa ég ykkur elju minni, vinnusemi, ábyrgð og ánægju sem varaformaðurmaður Huginsstjórnar. Verið skynsöm, setjið X við Heiðu Hlín í varaformann.



Kristján Helgi Garðarsson

Ég heiti Kristján Helgi Garðarsson og er kallaður KG. Ég er í 3.T og er að bjóða mig fram í embætti Exuberans Inspector eða varaformanns Huginsstjórnar. Sem varaformaður þarf maður að vera til staðar og geta gengið í öll störf og það tel ég mig geta gert og gott betur. Félagslífið í skólanum er mjög gott en alltaf má góðu við bæta og það vil ég gera! Auka fjölbreytni, halda í hefðir og gera allt sem ég get til þess að þú, kæri nemandi fáir sem mest út úr félgaslífinu hér í Menntaskólanum á Akureyri. Settu X við Kristján í varaformann.



Arnfríður Bjarnadóttir

Ég heiti Arnfríður Bjarnadóttir og er þriðja árs nemandi á tungumálasviði. Núliðinn vetur hef ég gegnt stöðu vararitsýru Munins og stefni á að gefa kost á mér í embætti varaformanns Huginsstjórnar veturinn 2016-2017. Ég fylgi því vel eftir sem ég hef áhuga á og það sem ég tek mér fyrir hendur geri ég vel. Eins og öllum öðrum sem eru að bjóða sig fram til stjórnar finnst mér félagslíf skólans mjög mikilvægt og það skiptir máli að hafa fólk í stjórn sem getur sinnt starfinu vel. Ég veit að ég mun inna starf varaformanns vel af hendi verði ég kosin. Ég tek svo mikið í bekk að ég lyfti öllu félagslífinu í MA upp án nokkurra erfiðleika.

Góð stjórn, gott félagslíf, okkar val, veljum rétt!

c. Quaestor scolaris / Gjaldkeri  



Arney Líf Þórhallsdóttir

Hæhæ!

Ég heiti Arney Líf og er fædd og uppalin á Akureyri. Ég er í 3. C og ætla að bjóða mig fram í embætti gjaldkera Huginsstjórnar næstkomandi skólaár. Mig hefur lengi langað að bjóða mig fram í stjórn og aldrei séð sjálfa mig fyrir mér í neinu öðru en gjaldkeranum. Ég tel mig vera skipulagða og duglega og myndi klárlega leggja mig alla fram um að gera skólaárið eftirminnilegt! X-Arney Líf í gjaldkera



Arnar Birkir Dansson

Ég heiti Arnar og er í 3. A. Ég býð mig fram í stöðu gjaldkera. Ég hef mikla reynslu af fjármálum á mörgum sviðum þar sem ég hef meðal annars séð um fjármál sjoppunnar síðastliðinn vetur, sem gjaldkeri sjoppuráðs. Meira að segja ungfrú Ásta Eydal kiknar í hnjánum við að sjá mín mánaðarlegu uppjör.

Þau áhrif sem ég hef á hana Ástu eru einmitt þau áhrif sem ég vil hafa á ykkur sem gjaldkeri skólafélgasins. En að öllu gríni slepptu þá er mér mjög annt um félagslífið í skólanum, við vitum öll að umfangsmiklar breytingar eru í vændum á næstu skólaárum og við þurfum sterka einstaklinga til þess að félagslífið haldi gæðum sínum um ókomin ár!

Okkar framtíð. Okkar val.



Fjölnir Unnarsson Ég heiti Fjölnir Unnarsson og býð mig fram í Gjaldkera Hugins næstkomandi skólaár. Frá því að ég byrjaði í MA hefur áhugi minn á félagslífi skólanns og störfum Hugins aukist með tímanum og nú er svo komið að ég er á leið í framboð til þess að taka þar virkari þátt og gefa meira af mér. Ég hef mikinn áhuga á fjármálum og metnað til þess að sinna þeim skyldum sem gjaldkera ber að sinna, vel og af nákvæmni. Ég er mjög opinn fyrir nýjum og ferskum hugmyndum og ég hlakka til að sjá störf skemmtinefndar sem verða eflaust til þess að félagslífið eflist. Frávarandi stjórn hefur staðið sig vel og ég yrði þakklátur að fá að halda áfram þar sem þau hættu. Það var grjóthart að gefa skít í söngvakeppni framhaldsskólanna og halda okkar eigin imo tbh. Ég mun alltaf setja starf mitt í stjórn í fullan forgang og það mun enginn sjá eftir því að hafa kosið mig.

Setjið X við Fjölni í Gjaldkera.


Hildur Lilja Valsdóttir Hjarðar Ég heiti Hildur Lilja Valsdóttir Hjarðar og er í 3. A. Ég bý hérna á Akureyri og er að vinna á Bláu Könnunni með skólanum. Ég elska að ferðast, baka og að upplifa óvænt ævintýri. Ég er að bjóða mig fram í gjaldkerann þar sem ég er góð í að áætla fram í tímann, hvað varðar sparnað og ráðstöfum fjármuna. Ég hef haft mikinn áhuga á félagslífi MA og þær hefðir sem eru, mig langar til að auka félagslífið og uppákomur hér í skólanum og viðhalda þessar skemmtilegu hefðum.

d. Scriba scholaris / Ritari  



Daði Jónsson

Daði Jónsson heiti ég og er í 3.B. Ég sækist eftir því að fara í stjórn Hugins í starf ritara vegna fjölmargra ástæðna en þó fyrst og fremst vegna þess að ég vil halda áfram með frábært starf fyrirrennara minna og stuðla að áframhaldandi góðu og vaxandi félagslífi í Menntaskólanum á Akureyri. Starf ritara er fjölþætt og ég tel mig vera vaxin þeirri ábyrgð sem því fylgir. Að vera í Huginsstjórn er áralangur draumur og nú vona ég að þið hjálpið mér að láta hann rætast!

Daði



Anna Marý Magnúsdóttir

Sælir kæru Menntskælingar!

Anna Marý Magnúsdóttir heiti ég og býð mig fram í stöðu ritara Huginsstjórnar skólaárið 2016 - 2017. Ég tók þá ákvörðun um að bjóða mig fram í stjórn strax í 1. bekk hér í Menntaskólanum á Akureyri. Þá heillaðist ég algjörlega af félagslífi skólans og þeirri stjórn sem þá var, ég hef verið ákveðin að þetta sé eitthvað sem mig langar til að gera. Í gegnum mína menntaskólagöngu hef ég tekið virkan þátt í félagslífi skólans og þeim ýmsu viðburðum og ferðalögum á vegum Hugins og undirfélaganna. Einnig stofnaði ég undirfélag síðastliðið haust og er formaður og ritari í þeirri stjórn ásamt því að hafa tekið þátt í fjölmörgum verkefnum sem önnur undirfélög hafa skipulagt.

Ég hef fylgst vel með því undanfarin ár hvernig félagslíf skólans hefur þróast og hvernig hægt væri að gera félagslíf skólans ennþá betra en það er í dag. Ég vil sjá til þess og leggja mig alla fram við það, að þegar ég útskrifast héðan úr skólanum sé félagsstarf og félagslíf skólans allvirkt og frábært eins og skólinn er þekktur fyrir.

Ég er skipulögð, samviskusöm og dugleg og á auðvelt með að vinna með fólki, auk þess finnst mér virkilega ánægjulegt að hjálpa öðrum. Ég hef gríðarlega mikinn áhuga á skreytingum og föndri og hef gott ímyndunarafl. Ég tel mig því vera fullhæfa í starf ritara.

Ef þú vilt gefa mér tækifæri til þess að gera næsta skólaár viðburðaríkt og skemmtilegt, settu þá X við Önnu Marý í ritara!



Birta María Aðalsteinsdóttir Ég heiti Birta María Aðalsteinsdóttir og er í 3.D. Ég býð mig fram til ritara, skólafélagsins Hugins skólaárið 2016 - 2017. Starf ritara hentar mér fullkomlega þar sem ég er með fallega rithönd og bæði góð í að glósa og pósa! Ég er þekktust fyrir að vera ómannlega metnaðarfull, skipulögð og eitt stykki dugnaðarmaskína. Ég er heilsufrík með fullkomnunaráráttu á háu stigi og er yfirleitt með gulrót í vasanum! Ég tala dönsku á sunnudögum og ef ég verð kjörin til ritara þá lofa ég að fara yfir alla dönsku stíla sem berast inn um lúguna hjá mér. Ég er algjör skutla og líka mjög góð í að skutla fólki heim af næturlífinu. Þið getið stólað á að ég mun Birtast þegar bjátar á! Kjósið Birtu og það mun Birta til. Bjart er yfir Betlehem svo ég betla hér um atkvæði þitt og ljósið mun skína. Setjið X- við Birtu Maríu í ritara! (B)MA.


Sara Arnardóttir Olsen Góðan daginn. Ég heiti Sara Arnardóttir Olsen og kem frá Seyðisfirði. Ég er á þriðja ári hér í menntaskólanum á Akureyri og er á sálfræði kjörsviði. Ég hef ákveðið að bjóða mig fram sem ritara Huginsstjórnar fyrir næsta skólaár. Ritara embættið er stórt og krefjandi en tel ég mig vera fullhæfa til að sinna því starfi vel. Ég vil hafa áhrif á félagslífið í MA og geta verið partur af því stórkostlega verkefni sem það að vera stjórnar meðlimur er, einnig vil ég gera árshátíðina sem eftirminnilegasta. Ég vona að þið hafið einnig trú á mér til að sinna þessu starfi með prýði.

e. Erus gaudium / Skemmtanastjóri  



Egill Örn Ingibergsson

Sælir kæru samnemendur

Ég heiti Egill Örn, er nemandi í 2.D. Ég hef alveg brjálaðslegan áhuga á félagslífinu og öllu því tilheyrandi og er því að bjóða mig fram í skemmtanastjórann fyrir skólaárið 2016-17. Ég var kannski dálítill tossi í 1.Bekk,(Íslandsáfanginn maður!) En núna er ég mjög metnaðarfullur, skipulagður og tilbúinn að takast á við öll þau verkefni sem fylgja embættinu, bæði stór og smá.

Ég er alltaf tilbúinn að bralla eitthvað til þess að gera félagslífið í MA skemmtilegra og öflugra.

Svo spurningin er, kæri lesandi; ert þú tilbúinn að gera það með mér?



Þorsteinn Kristjánsson

Ég heiti Þorsteinn Kristjánsson og er í 3. bekk á sögukjörsviði. Ég býð mig fram í embætti skemmtanastjóra Huginsstjórnar með stór markmið í huga. Ég vil ég leggja mitt af mörkum til þess að færa skemmtanir og þá góðu viðburði á vegum MA upp á næsta plan. Ég myndi glaður vinna með skemmtónefndinni að þeim markmiðum enda tel ég hana vera það sem skólann vantaði. Nemendur skólans eiga að hafa meira að segja um félagslífið og þ.a.l. vil ég einnig veita fleira fólki aðgang að búrinu í löngu og gera það vel, gera skipulögð plön og umsóknardálk á Huginssíðunni til að hafa reglu á því hverjir yrðu hvenær í búrinu. Setjið X við Þorstein í skemmtanastjóra og þið getið gengið áhyggjulaus inn um gleðinnar dyr! Hilsen. Þ.


Karen Jónsdóttir

Sæl og blessuð, Karen Jónsdóttir heiti ég, og er í 3.C. Ég veit ekki hvort ég eigi að vera að segja frá því, en ég kem frá Keflavík. Ég er að bjóða mig fram í skemmtanastjóra Huginsstjórnar fyrir næsta skólaár. Mér finnst skemmtanastjóri henta mér gríðarlega vel vegna þess að ég hef alltaf gert allt til þess að skemmta fólki og gleðja það. Ég er með mjög gott andrúmsloft í kringum mig og hef alltaf átt auðvelt með það að kynnast fólki. Setjið X - Karen Jóns í skemmtanastjóra, ég lofa að þið munið ekki sjá eftir því.

f. Collega / Meðstjórnandi



Rebekka Hekla Halldórsdóttir

Heil og sæl!

Ég heiti Rebekka Hekla Halldórsdóttir og er fædd og uppalin á Molastöðum í Fljótum, elst af 6 (brátt 7) systkinum, ég sleit ég mig frá fjölskyldunni eftir 9.bekk árið 2013 og lá leiðin í Menntaskólann á Akureyri með stóra drauma. Nú í lok þriðja bekkjar nálgast endirinn og vil ég leggja mitt af mörkum fyrir nemendur skólans á síðasta árinu. Í gegnum árin hefur áhuginn minn gagnvart MORFÍs og Gettu betur alltaf verið til staðar. Ég hef verið á bak við tjöldin og ekki mikið í sviðsljósinu, enda er það ekki allra staður að vera þar. Nú síðastliðið ár var ég ritari málfundafélagsins og veitti það mér innsýn í heim þessara beggja þátta sem eru mikilvægir fyrir skólann. Innsýn þessa gæti ég auðveldlega nýtt í stöðu Meðstjórnanda þar sem hlutverk hans er að fylgjast með framvindu MORFÍs og Gettu betur ásamt öllum hinum undirfélögunum sem halda uppi félagslífi skólans.



Valgerður María Þorsteinsdóttir

Kæru samnemendur, ég býð ykkur með í ferðalag. Ferðalag þar sem undirfélögin taka þátt í að skipuleggja stærstu viðburði skólaársins. Ferðalag þar sem þau taka að sér meiri ábyrgð og stærri verkefni. Ferðalag þar sem hlustað er á hugmyndir þínar, kæri samnemandi, og þú getur haft áhrif.

Ég heiti Valgerður María Þorsteinsdóttir og býð mig fram í stöðu meðstjórnanda. Ég hef verið virk í undirfélögunum öll mín ár, og hef séð hversu marga hugmyndaríka, kraftmikla og metnaðarfulla einstaklinga er að finna í skólanum okkar. Því fleiri sem taka þátt í að byggja upp félagslífið, því fjölbreyttara verður það og allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Hlutverk meðstjórnanda er að hafa yfirumsjón með starfi undirfélaganna og vera tengiliður þeirra við Huginsstjórn. Mig langar að fá fleiri námskeið frá undirfélögunum á Ratatosk og viðburði á þeirra vegum í löngu.

Ég tel mig fullfæra til að sinna störfum meðstjórnanda og vona að þið séuð sama sinnis.



Kolbrún Ýr Jósefsdóttir Amin

Ég heiti Kolbrún Ýr Jósefsdóttir Amin og er í 3. D. Ég býð mig fram sem meðstjórnanda skólafélagsins næsta skólaárið. Ástæðan fyrir að ég valdi Menntaskólann á Akureyri var útaf góðu félagslífi og síðan var gott nám auðvitað einhver plús. Því skiptir það mig miklu máli að félagslífið sé sem best og undirfélögin í skólanum eru stór partur af því. Ég legg mig 100% fram í allt sem ég tek mér fyrir hendur og því tel ég mig geta gegnt þessu hlutverki og gert næstu stjórn hrikalega skemmtilega.

g. Presidium Pactum / Forseti fjáröflunarnefndar  


Daníel Orri Jóhannsson

Daníel Orri heiti ég og býð mig fram sem forseta fjáröflunarnefndar. Ég er fæddur og uppalinn Akureyringur með stórt hjarta og mikinn áhuga á félagslífinu í Menntaskólanum á Akureyri. Síðan ég var lítill busi heillaðist ég afar mikið af Hugins stjórn, mig hefur síðan þá langað að halda áfram þessu frábæra starfi sem síðustu og sérstaklega núverandi Hugins stjórn hefur verið að sinna.

Ég hef alltaf verið mjög sækinn í félagslífið hér í skólanum og langar mig að vera enn stærri hluti af því og efla það enn fremur. Ég er duglegur, ábyrgur, opinn fyrir nýjungum og mun ég leggja blóð, svita og tár í að gera næstkomandi ár sem allra best. Skólinn, fólkið og félagslífið í heild sinni hefur gefið mér ótrúlega margt og finnst mér vera kominn tími á að ég gefi eitthvað til baka. Ég er einnig tilbúinn til þess að gera hvað sem er til að halda í hefðirnar, þar má nefna sem dæmi, busunina.

Kjósum rétt og setjum X- Daníel í fjár



Ívan Árni Róbertsson

Eitt stærsta og mikilvægasta verkefni nýrrar stjórnar er að hanna okkar ótrúlega félagslíf inn í þriggja ára kerfi og getur það orðið fallegt ferli með réttri meðferð. Ég vil sjá til þess að hefðirnar haldi sér og fái aðeins á sig nýja mynd með nýjum nemendum. Hlutverk forseta fjáröflunarnefndar er fyrst og fremst að leiða samnefnda nefnd, sem þarf að virkja til verka, sem og semja við fyrirtæki. Með fjárhagslega sterkum  og nýjum samningum fást enn fleiri gleðidagar, gúrmé pizzur og eitthvað glænýtt sem ég er enn spenntari fyrir en þið! Elsku krakkar, þið getið treyst mér en jafnframt munið að kjósa eftir eigin sannfæringu. Ívan Árna Róbertsson í forseta fjáröflunarnefndar!



Þuríður Kvaran Guðmundsdóttir

Komiði heil og sæl! Ég heiti Þuríður Kvaran Guðmundsdóttir og er á þriðja ári á tungumálabraut. Ég er frá Mosfellsbæ en flutti þaðan þegar ég ákvað að koma hingað í Menntaskóla. Ég er að bjóða mig fram til forseta fjáröflunarnefndar vegna þess að ég tel mig geta höndlað þá ábyrgð sem fylgir því að sitja í því embætti og sjá til þess að sanngjarnir samningar og samræður við styrktaraðila okkar fari vel fram. Það þarf ýmislegt að gera fyrir komandi vetur í tengslum við fjáröflunarnefndina og það starf fer mestmegnis fram á sumrin. Ég er búsett á Akureyri og ég er reiðubúin til þess að eyða mínu sumri jafnt sem vetri í þessa vinnu. Ég vona að þið treystið mér fyrir þessu hlutverki og þeirri ábyrgð sem því fylgir, því ef svo er megið þið setja X við Þuríði Kvaran sem forseta fjáröflunarnefndar.



Daníela Jóna Gísladóttir

Ég heiti Daníela Jóna og er í 3.C. Ég er að bjóða mig fram í embætti forseta fjáröflunarnefndar fyrir næsta skólaár. Ástæðan sem liggur þar að baki er tiltölulega einföld: Ég er jafn góð að afla peninga og ég er í að eyða þeim. Þar að auki er ég samvinnuþýð, pottþétt og tel mig hafa það sem þarf til að sinna embættinu af alúð og dugnaði. Settu X við Daníelu í forseta fjáröflunarnefndar og ég lofa góðu og eftirminnilegu skólaári!

h. Presidium discipulus / Forseti hagsmunaráðs  



Gunnur Vignirsdóttir

Ég heiti Gunnur Vignisdóttir og ég er að bjóða mig fram sem Forseti Hagsmunaráðs í Huginsstjórn veturinn 2016-2017. Ég er mjög félagslynd og á mjög auðvelt með að vinna með fólki. Réttlætiskendin mín er afar sterk og ég tel það vera mikilvægt þegar kemur að því að sinna störfum hagsmunaráðs. Ég vil að hagsmunaráð sé aðgengilegt fyrir ykkur og ég mun leggja mig alla fram við að vernda hagsmuni ykkar sem allra best. Sem virkur meðlimur í félagslífi skólans veit ég hversu gott félagslífið í MA er og vil ég gera mitt allra besta til að næsta skólaár verði sem skemmtilegast fyrir alla. Ég hef fulla trú á því að ég muni standa mig glimrandi vel í stjórn nemendafélagsins og vá hvað það yrði gaman! Eru ekki allir til í að ég sinni hagsmunum þeirra?

Settu X við Gunni í Hagsmunaráð!



Sara Mist Gautadóttir

Komiði sæl kæru MA-ingar!

Ég heiti Sara Mist Gautadóttir og er í 3. bekk á raungreinasviði. Ég býð mig fram í embætti forseta hagsmunaráðs Huginsstjórnar. Hagsmunaráð samanstendur af mörgum mismunandi einstaklingum sem þó hafa sama markmið, að nemendur fái að njóta réttar síns. Ég hef ákveðnar hugmyndir og markmið varðandi störf hagsmunaráðsins sem ég ætla mér að koma á framfæri ef ég verð svo heppin að fá að tilheyra þessum hópi. Ég hef mér ekki einungis markmið hvað hagsmunaráðið varðar heldur er félagslíf skólans mér ofarlega í huga. Miklar breytingar eru í vændum og þykir mér það mikilvægt að þær muni ekki hafa áhrif á það sem skólinn okkar er þekktastur fyrir. Ég vil að við höldum fast í gömlu góðu hefðirnar okkar en aftur á móti langar mig líka að við sköpum okkur nýjar hefðir. Hér með lofa ég því að ég mun leggja allt mitt að mörkum til að gera næstkomandi skólaár sem eftirminnilegast fyrir okkur öll. Settu X við Söru Mist í embætti forseta hagsmunaráðs Huginsstjórnar.

i. Ritstjóri Munins  



Lovísa Helga  Jónsdóttir

Lovísa heiti ég og er í 3.A. Ég býð mig fram í embætti ristýru Munins. Ég hef síðastliðið skólaár setið í ritstjórn Munins ásamt mörgum öðrum vitleysingum og þekki því starfið vel. Ég er með margar hugmyndir fyrir komandi skólaár meðal annars róttækar aðferðir svo fleiri nemendur sendi inn efni.

Mig langar til að gera skólablaðið jafn gott og það hefur alltaf verið og hlakka til að takast á við það með ykkur öllum.

j. Fulltrúar tilvonandi þriðja og fjórða bekkjar í Hagsmunaráð  

Tilvonandi fulltrúi fjórða bekkjar



Hekla Liv Maríasdóttir

Sæl veriði.

Hekla Liv heiti ég og er að bjóða mig fram sem fulltrúa 4.bekkjar í Hagsmunaráð skólaárið 2016-2017. Ég hef setið í Hagsmunaráði öll árin mín í MA og veit hversu mikilvægt slíkt ráð er. Mig langar mjög mikið til þess að verða fulltrúi 4.bekkjar í Hagsmunaráði og vona að þið samnemendur, treystið mér til þess. Ég hef alla tíð haft sterka réttlætiskennd og veit hvað þarf til þess að geta sinnt starfinu vel. Ég hef tekið að mér allskyns verkefni þau ár sem ég hef verið í Hagsmunaráði og langar til að eiga hlut í að gera ráðið enþá virkara á næsta ári. Ég vil að öllum líði vel, alltaf, í skólanum og mun ég leggja mig alla fram við að ná því markiði ef ég kemst í ráðið.  

Takk kærlega!

Tilvonandi fulltrúi þriðja bekkjar



María Lillý Ragnarsdóttir

Ég heiti María Lillý Ragnarsdóttir og er í 2.bekk. Vil ég hér með bjóða mig fram sem fulltrúa tilvonandi 3.bekjar í hagsmunaráði. Ég er núna í þessu ráði sem fulltrúi 2.bekkjar og sé ég því hversu mikilvægt þetta er. Ég vil halda áfram að leggja mitt af mörkum við að bæta hagsmuni nemenda okkar í skólanum.

l. Formaður skemmtinefndar og fjórir meðstjórnendur   

Formaður



Bernódus Óli Einarsson

Sælir kæru samnemendur.Ég heiti Bernódus Óli og er nemandi í 2. D. Eftir að ég byrjaði í MA hef ég, eins og aðrir nemendur MA; kynnst fullt af skemmtilegum hefðum og hef ég mjög gaman af þeim. Ein af þessum hefðum eru kvöldvökurnar góðu og núna nýlega var lögunum breytt svo að skemmtinefnd sér um kvöldvökurnar en ekki Huginsstjórn, þessvegna hef ég ákveðið að bjóða mig fram í formann skemmtinefndar.

Mínir styrkleikar liggja í skipulagningu og framtakssemi en ég er óhræddur við að fara ótroðnar slóðir og er mjög opinn fyrir hugmyndum annara.  Ég hef mjög mikinn áhuga á félagslífi MA og að halda því gangandi og kvöldvökur eru ein af stærri félagslífshefðunum okkar. Þær þurfa því að vera vel skipulagðar og af ábyrgum aðillum. Að færa kvöldvökur úr umsjá Huginsstjórnar yfir í umsjá skemmtinefndar er þónokkuð stökk og þar sem að þetta er í fyrsta skipti sem það er reynt þá þurfa þeir sem að taka þetta verkefni að sér að vera vel undirbúnir í þetta. Ég tel mig sjálfann mjög tilbúinn til að takast á við þetta verkefni og vona að aðrir séu á sama máli.

Meðstjórnendur



Harpa Lind Þrastardóttir

HELLO KIDZZZ!

Hver er ekki til í magnaða tíma á næsta ári?

Ég er allvegana með fullt af hugmyndum til þess að gera næsta ár enn betra en það seinasta!

Það væri hellað pepp ef þið mynduð kjósa mig í skemmtinefnd 2016-2017

Adios



Melkorka Ýrr Yrsudóttir

Melkorka heiti ég og er á öðru ári á félagsfræðibraut. Ég er að bjóða mig fram í skemmtinefnd næstkomandi skólaárs, afhverju? Ég hef gríðalegan áhuga á félagslífinu í MA og vil gjarnan taka enn meiri þátt í því með þvi að bjoða mig fram í þessa nefnd. Eg vil geta lagt mitt af mörkunum til þess að gera ykkar kvöldvökur og ykkar félagslíf sem frábærast!  



Edda Sól Jakobsdóttir

VILT ÞÚ KÖKU?

Ég Edda Sól vonast til að geta bakað hana á næsta skóla ári þegar að ég verð komin í 3.bekk, uppskrift:

5 fullir bollar af hamingju

2 handfylli af örlæti og viljastyrk

1 höfuðfylli af trú

og heil kvos af hlátri

Í miðjunni er samansafn af góðum og gömlum hugmyndum t.d minute 2 win it, lipsing battle og átkeppnir. Til að koma þér síðan á óvart í gegnum heilt skólaár eru nýjungar stráðir yfir toppinn.

Ég, skemmtunarbakarinn vil síðan fá undirfélögin og nemendur sem hafa áhuga með í gerð kökunar. Því fleiri því betri og stærri verður hún.

Svo kæri neytandi,

með þínu atkvæði gefur þú mér kost á að fara eftir þessari krefjandi uppskrift með miklum áhuga. Ég er mjög spennt yfir því að bera kökuna fram á nýjum og gömlum atburðum á næsta skólaári.

Svo hvað segiru, má bjóða þér bita?



Ísak Máni Grant Halló, ég heiti Ísak Grant og er nemandi í 2.D. Ég hef alltaf haft gaman af því að taka þátt í viðburðum sem tengjast félagslífinu í MA, ég hef líka mjög gaman af því að plana skemmtilega viðburði og þessvegna er ég að bjóða mig fram í skemmtinefnd þetta skólaárið. Kvöldvökur eru eitt af mörgum frábærum viðburðum í félagslífinu og mér finnst það vera mjög mikilvægt að mikill metnaður sé lagður í þær og það er ég tilbúinn að gera.


Una Magnea Stefánsdóttir Hallóhalló Una heiti ég og býð mig fram í skemmtinefnd þetta árið. Ég hef mikla og góða reynslu af félagslífinu í MA kannski of mikla samkvæmt móður minni en það er nú eðlilegt hjá okkur unga fólkinu sem erum að prufa okkur áfram í lífinu. Þar sem ég hef komist í snertingu við þessa miklu töfra sem félagslífinu fylgja vil ég endilega henda inn nokkrum af mínum eigin göldrum sem þið getið vonandi notið góðs af.

m. Formaður Leikfélagsins  



Ingvar Þóroddson

Kæru samnemendur, Ingvar Þóroddsson heiti ég og býð mig fram í formann Leikfélagsins fyrir næsta skólaár. Frá því að ég hóf skólagöngu mína í MA hef ég tekið virkan þátt í starfsemi LMA og setið í stjórn félagsins þetta skólaár. Að taka þátt í LMA er eitt það skemmtilegasta sem ég geri; hvort sem það er bara eitthvað að fíflast, eða að setja upp risastóra og metnaðarfulla sýningu. Það hefur gert mikið fyrir mig að fá að vera hluti af LMA og brennur það því á mér að félagið haldi áfram að vera jafn stórkostlegt og gefandi og það er í dag. Ég er tilbúinn að leggja mig allan fram til að sjá til þess og þess vegna er ég að bjóða mig fram. Ingvar Þóroddsson, 2. V.

n. Formaður Málfundafélagsins  



Karólíona Rós Ólafsdóttir

Fundarstjóri, dómarar, andmælendur og góðir gestir

Höfuðborg Perú er Líma, Vigdís Finnbogadóttir er fædd 15.apríl 1930 og hornasumma þríhyrnings er 180° !

Já kæru samnemendur ég heiti Karólína Rós og býð mig fram í stöðu formanns Málfundafélagsins. Málfundafélagið heldur utan um störf MORFÍs og Gettu Betur í MA - sér um inntökupróf, þjálfaramál og almennt fjör í þessum málum (plús að vera nokkuð osom).

Ég hef mikla reynslu af starfi Málfó - eins og við köllum það - auk þess sem ég er osom annan hvern fimmtudag og upprennandi rappari. Ég vil halda áfram góðu starfi þessa félags og hvet alla til að taka þátt svo við komum okkar liðum til sigurs!

o. Formaður Dansfélagsins  



Svandís Davíðsdóttir

Kæru MA-ingar,

Ég heiti Svandís Davíðsdóttir og hef sinnt stöðu formanns dansfélagsins, PríMA, síðustu tvö skólaár. Ég hef lært og þroskast gríðarlega við það sinna félaginu þessi ár og hefur það fært mér ótrúlega mikla gleði. Þess vegna ætla ég að bjóða mig fram sem formann PríMA fyrir næsta skólaár, árið 2016-2017. Alltaf er hægt að bæta sig og stefni ég svo sannarlega á að gera það ef ég fæ tækifæri til þess. RISA dansatriði með GEGGJUÐUM búningum og SNILLDAR tónlist er eitthvað sem ég sé fyrir mér á næstu árshátíð. Það væri algjör synd að missa af slíku dansatriði. Til þess að koma í veg fyrir það kjósið þið Svandísi sem formann dansfélagsins

28 views0 comments
bottom of page