Search
  • Skólafélagið Huginn

FRAMBOÐSLISTI

a. Inspector scholae/ Formaður

Klara Ósk Kristinsdóttir

Hvernig er best að velja sér góðan formann?

Sjálf myndi ég velja einstakling sem er ófeiminn, hefur einlægan áhuga á starfinu og er tilbúinn til að leggja sig allan fram í það sem hann tekur sér fyrir hendur. Ég myndi velja manneskju sem er alltaf til í að aðstoða, sem ég get treyst og leitað til. Svo er mjög mikilvægt að manneskjan hafi góðan húmor, komi vel fram við aðra og sé alltaf til í flippið.

Sjálf heiti ég Klara Ósk og býð mig fram í Inspectrix Scholae, en svo heppilega vill til að mér finnst ég einmitt vera gædd þessum kostum og tel mig geta staðist þessar kröfur. Eins og flestir aðrir frambjóðendur hef ég það að markmiði að styrkja það frábæra félagslíf sem við höfum hér við skólann, ásamt því halda í gömlu góðu hefðirnar. En það er einmitt aldrei mikilvægara en núna þegar við erum að aðlaga félagslífið að þriggja ára kerfinu.

Ég sjálf treysti mér fullkomlega í þetta verkefni og vona að þið gerið slíkt hið sama.   

Bestu kveðjur

Klara ÓskIngvar Þóroddsson

Jú sælir kæru samnemendur,

Ingvar Þóroddsson heiti ég, er nemandi í 3. X og gef kost á mér í embætti Inspector Scholae fyrir næsta skólaár. Mig langar mjög að nýta þá dýrmætu reynslu og áhuga sem ég hef öðlast við þáttöku mína í félagslífinu hingað til, þá sérstaklega í LMA og nú síðast sem formaður, og láta gott af mér leiða fyrir nemendalíf MA í heild sinni.

Við megum aldrei taka félagslífinu í MA, sem okkur þykir svo vænt um, sem sjálfsögðu, hvort sem það eru gleðidagar, söngsalir og kvöldvökur sem brjóta upp og krydda hversdagsleikann eða stór sameiginleg verkefni á við árshátíðina og uppsetningar LMA, svo fátt sé nefnt. Er ég tilbúinn í að gera mitt allra besta til að efla og viðhalda öllu þessu mikilvæga félagsstarfi í sameiningu við allt það góða fólk sem á hverju ári leggur hart að sér til að gera árin hér í MA skemmtilegri, betri og meira gefandi fyrir okkur öll.

Þess vegna er ég að bjóða mig fram. 

b. Exuberans Inspector / VaraformaðurMargrét Hildur Egilsdóttir

Ég heiti Margrét Hildur Egilsdóttir og er í 3.B. Ég býð mig fram til embættis Exuberans Inspector eða varaformanns Huginsstjórnar. Staðan heillar mig fyrst og fremst af því henni fylgja krefjandi skyldur og fjölbreytt verkefni. Ég er jákvæð og staðföst og tel mig hafa alla burði til þess að sinna embættinu með sóma.

Ég hef lengi dáðst að störfum Huginsstjórnar og því langar mig að leggja mitt af mörkum til að frábæru starfi undarfarinna ára verði haldið áfram.

Það að ganga í skóla með jafn magnað félagslíf og Menntaskólinn á Akureyri hefur er alls ekki sjálfgefið og ég álít mig því heppna ef þig treystið mér til þess að taka þátt í því að gera það jafnvel enn magnaðra á næsta skólaári.


Ísak Máni Grant

Sælir veriði kæru MA'ingar

Ég heiti Ísak Grant, er nemandi í 3.B og er að bjóða mig fram í embætti Exuberans Inspector eða varaformanns Huginsstjórnar. Á síðasta lagabreytingarfundi voru samþykktar breytingar á þessu hlutverki, breytingar sem ég er mjög spenntur fyrir. Nú á varaformaður að sjá um markaðssetningu á öllum viðburðum skólafélagsins og einnig alla samfélagsmiðla þess. Síðustu tvö ár hef ég gegnt slíku hlutverki innan LMA og tel ég það góða reynslu sem mun nýtast mér í hlutverki varaformanns. Hingað til hef ég tekið virkan þátt í félagslífinu hér í MA, allt frá því að setja upp árshátíðina, halda þemadaga eða skipuleggja kvöldvökur svo eitthvað sé nefnt.

Ég hef reynsluna og áhugann sem þarf til að viðhalda og efla félagslífið hér í skólanum og sinna þessu nýja og bætta hlutverki varaformanns. Ég yrði ævinlega þakklátur fyrir ykkar stuðning og vona að þið setjið X við Ísak í varaformann Huginsstjórnar.

c. Quaestor scolaris / GjaldkeriHjörvar Blær Guðmundsson

Kæru samnemendur, Hjörvar Blær heiti ég og býð mig fram til embættis gjaldkera fyrir komandi skólaár. Ég hef lengi dáðst að því magnaða félagslífi sem við MA-ingar búum við og verið mjög stoltur og þakklátur fyrir að vera hluti af því. Það er ekki sjálfgefið að félagsstarfið sé jafn gott og raun ber vitni, til þess þarf sterka einstaklinga, sterk undirfélög og síðast en ekki síst, sterka stjórn. Fráfarandi stjórn hefur staðið mjög vel að verki, en því er mikilvægt að við stöðnum ekki, heldur setjum markið enn hærra.

Ég er mjög metnaðarmikill og skipulagður, auk þess sem ég hef mikinn áhuga á fjármálum. Þessir eiginleikar munu gera mér kleyft að sinna verkum gjaldkera af festu og mikilli nákvæmni. Þetta er gríðarlega ábyrgðarmikil staða, sem ég mun setja í algjöran forgang svo gera megi sem mest fyrir hvert undirfélag og félagslífið í heild sinni. Ég vona að þú leggir traust þitt í mínar hendur, með einu litlu sætu x-i við Hjörvar. Saman getum við gert næsta skólaár enn betra en það sem nú fer senn að ljúka.Rebekka Garðarsdóttir

Kæru MAingar

Ég heiti Rebekka Garðarsdóttir, er í 3.U og býð mig fram í stöðu gjaldkera Huginsstjórnar. Félagslífið í MA hefur heillað mig alveg frá því að ég gekk fyrst inn um aðaldyrnar. Ég hef alltaf litið upp til Huginsstjórnar og nú er komið að mér að bjóða mig fram og gefa af mér það sem ég hef uppá að bjóða.

Starf gjaldkera krefst mikillar skipulagningar, metnaðar og skynsemi og ég tel mig geta sinnt starfinu vel og gert gott betur. Ég hef mikinn áhuga á fjármálum og öllu sem að því kemur.

Fólk segir að peningar kaupi ekki hamingju, peningar kaupa samt slæsur og aldrei hef ég séð neinn leiðan með slæsu!

Ég hef tíma, metnað og áhuga til að sinna þessu starfi og leggja mig 150% fram.

Settu X-við Rebekku í gjaldkera og fjölgum slæsum í skólanum!

 d. Scriba scholaris / RitariHafsteinn Ísar Júlíusson

Kæru samnemendur, Hafsteinn Ísar ég heiti og er í 3.T.

Ég er að bjóða mig fram í Scriba scholaris, eða ritara Huginsstjórnar skólaárið 2017-2018 því mig langar að stuðla að góðu félagslífi í skólanum og halda áfram frábæru starfi fráverandi stjórnar.

Starf ritara er stórt og því fylgir mikil ábyrgð og vinna sem ég tel mig vera fullfæran í.

Að vera í Huginsstjórn hefur verið draumur hjá mér síðan ég kom í skólann og ég vona að þið hjálpið mér að gera þennan draum að veruleika.Reynir Eysteinsson

Kæru samnemendur

Reynir Eysteinsson heiti ég og er í 3.X. Ég sækist eftir embætti ritara Huginsstjórnar fyrir næstkomandi skólaár og eru ástæðurnar fyrir því allnokkrar.

Félagslífið í skólanum er hreint út sagt frábært og vil ég, vonandi ásamt öðrum verðandi stjórnarmeðlimum, halda þessu magnaða tannhjóli vel smurðu og jafnvel bæta enn meira í.

Einnig er ég mjög spenntur að takast á við það frábæra tækifæri að fá að skipuleggja og setja upp okkar árlegu og stórfenglegu árshátíð í kringum 1. des. Ég tel mig mjög vel til þess fallinn, en ég bý yfir mikilli ákveðni og finnst einstaklega gaman að vinna með öðrum að stórum og framandi verkefnum.

Sem Huginsstjórnarmeðlimur heiti ég þér, kæri samnemandi, að vera ávalt til staðar. Þú getur gengið að því vísu, að ef þú ert í vanda með eitthvað tengt náminu eða félagslífinu þarftu ekki að gera annað en að heyra í mér og við finnum lausn saman, því ég tel að ekkert vandamál sé svo stórt að það sé ekki yfirstíganlegt.

Kær kveðja, Reynir Eysteinsson.


Sunna Birgisdóttir

Kæru MA-ingar

Ég heiti Sunna Birgisdóttir og er í 3. B og ég býð mig fram í embætti Ritara, Scriba Scholaris Huginsstjórnar næstkomandi skólaárs. Mig hefur langað að vera ritari í stjórn alveg síðan ég var í 10. bekk í grunnskóla og núna er komið að þessu. Undanfarin 3 ár hef ég fengið að vinna með fyrrum riturum og verið partur af ferlinu að setja upp okkar glæsilegu árshátíð. Það hefur alltaf verið uppáhalds tíminn minn af skólaárinu að skreyta höllina.

Ég ásamt öllum MA-ingum þykir vænt um sterka og flotta félagslífið sem ríkir í þessum skóla og langar mig að leggja mitt af mörkum til að viðhalda og jafnvel betrumbæta alla þá starfsemi sem að Huginsstjórn sér um.

Ég tel mig vera vel hæfa í þetta starf svo ef þið viljið sjá mig sem ritara skólanns setjið X við Sunnu í ritara Huginstjórnar.

e. Erus gaudium / SkemmtanastjóriValdís María Smáradóttir

Kæru samnemendur, ég er í 3.D og býð mig fram í stöðu Erus Gaudium eða skemmtanastjóra næstkomandi skólaár.

Skemmtanastjórinn hefur það hlutverk að koma að topp tónlist í löngu ásamt því að þurfa að eiga í góðum samskiptum við bæði skemmtó og aðra meðlimi Huginstjórnar. Þessa hluti tel ég mig vel hæfa í en ég er opin fyrir ferskum hugmyndum og er meira en til í að vinna með skemmtó til að gera árið  eins skemmtilegt og eftirminnilegt og hægt er. Ég vona að þú treystir mér í þetta skemmtilega ævintýri sem mig langar að gera næsta skólaár að.

X-Valdís í skemmtanastjóra og þú átt eftir að eiga bestu löngu lífs þíns.Sölvi Karlsson

Kæru samnemendur,

Sölvi Karlsson heiti ég og er í 3. Bekk á félagsfræðikjörsviði. Ég býð mig fram í embætti skemmtanastjóra.

Ég hef kynnst hinum ýmsu hliðum félagslífsins seinustu ár, verið yfirhúsbandsmeistari, tekið þátt í leikfélaginu, aðstoðað við uppsetningu á árshátíðum og við hin ýmsu tæknimál tengd kvöldvökum og viðarstaukum. Ég vil halda áfram að efla nemendur skólans til framkvæmda í félagslífi skólans og nýta stjórnina sem stökkpall fyrir þá nemendur til að koma hugmyndum þeirra á framfæri.

Þar að auki hef ég verið í tæknifélaginu, TæMA, síðan ég kom í skólann og hef einmitt mikinn áhuga á hljóðbúnaði og tæknimálum, sem er kunnátta sem ég tel að muni nýtast mér einstaklega vel í starfi Skemmtanastjóra.

Búrið er búið að vera mitt heimili af og til í gegnum skólagönguna og vonast ég nú til að flytja lögheimili mitt þangað. En það er ekki mögulegt án ykkar stuðnings.

Setjið því X við Sölva í skemmtanastjóra.

f. Collega / MeðstjórnandiElmar Blær Arnarsson

Kæri MA-ingur

Elmar Blær Arnarsson heiti ég og býð mig hér með fram í stöðu meðstjórnanda Hugins skólaárið 2017-2018. Mig hefur alltaf langað að vera meðlimur Huginsstjórnar og embætti meðstjórnanda hefur alltaf verið heillandi í mínum augum. Meðstjórnandi þarf að hafa yfirumsjón og vera helsti tengiliður stjórnarinnar við öll undirfélög og formenn þeirra, stór sem smá. Ég hef mikinn áhuga á þessu starfi og tel mig geta sinnt því vel.

Síðustu ár hef ég tekið virkan þátt í félagslífi skólans og eru það öll undirfélögin og allir meðlimir innan þeirra sem gera félagslífið eins og það er. Öll litlu félögin í skólanum og stóru rótgrónu félögin mynda stórskemmtilega heild sem ég hef gríðarlegan áhuga á að viðhalda og bæta enn frekar. Ég er tilbúinn að hlusta á tillögur ykkar allra og hjálpa til við að framkvæma allar ykkar hugmyndir.

Vonandi treystir þú mér í þetta embætti því ég mun svo sannarlega leggja mig allan fram og gera mitt besta til að gera næsta ár að þínu besta hér í Menntaskólanum á Akureyri.Sara Júlía Baldvinsdóttir

Kæru samnemendur,

Ég heiti Sara Júlía Baldvinsdóttir og er á 3. ári á sálfræðikjörsviði. Ég hef ákveðið að bjóða kost á mér í embætti meðstjórnanda Huginsstjórnar fyrir skólaárið 2017-2018. Fyrir ykkur sem vita ekki hver ég er þá hóf ég skólagöngu mína í Menntaskólanum á Akureyri árið 2013 á hraðlínu, hélt svo áfram í 2.bekk en þaðan var ferðinni heitið til Spánar í skiptinám. Í vetur hef ég verið að bralla ýmislegt, meðal annars var ég yfirþjónn á okkar stórglæsilegu árshátíð og tók stóran þátt í leikmyndateymi leikfélagsins.

Ástæðan fyrir því að ég hef ákveðið að bjóða mig fram í Huginstjórn, þá nánar tiltekið í stöðu meðstjórnanda, er minn mikli áhugi og ástríða fyrir félagslífi skólans. Frá því að ég hóf skólagöngu mína hér í MA hefur mig langað að láta gott af mér leiða og efla félagslíf skólans. Ég tel að þetta sé tilvalið tækifæri efla og örfa félagslífið okkar.

Vilji, áhugi og metnaður til góðra verka fyrir okkur öll er það sem ég stend fyrir.Egill Örn Ingibergsson Richter

Sæl verið þið kæra fólk, ég heiti Egill Örn og er að bjóða mig fram í Meðstjórnanda Huginsstjórnar.

Alveg síðan ég tók mín fyrstu skref hérna í MA, hefur mér verið ljóst að undirfélögin eru ómissandi hluti af skólagöngu margra. Hvort sem það er Folf-Löngu, þáttur hjá FriendsMA eða uppsetning LMA leikritsins, þá eru þetta allt undirfélögin sem lita daginn manns af gleði.

Ég hef mikla þekkingu á undirfélögum og sem meðstjórnandi myndi ég hvetja þau til dæmis til að halda oftar viðburði eða keppnir í Kvosinni.

Ég vil viðhalda þessari sterku flóru undirfélaga og hjálpa smærri undirfélögum að dafna.

Að vera meðlimur Huginsstjórnar er ábyrgðarfull staða og er stjórnin mikilvæg öllum nemendum. Ef þið treystið mér til þess að gegna þessu embætti, þá stefni á að gera metnaðarfullt og skemmtilegt skólaár markmið næstu stjórnar.

g. Erus Pactum/ EignastjóriGuðrún María Skarphéðinsdóttir

Ég heiti Guðrún María Skarphéðinsdóttir, er þriðja árs nemi á félagsfræðikjörsviði og ég er að bjóða mig fram í stöðu eignarstjóra.

Hlutirnir sem allir kunna að meta, gleðidagar, kvöldvökur og jú skólaafslættirnir góðu verða að vera til staðar en til þess þarf að afla fjár. Ég tel mig vera fullfæra um það og gott betur! Eins og öllum sem bjóða sig fram langar mig að viðhalda frábæra félagslífinu í skólanum og nú þegar þriggja ára kerfið er tekið við reynir enn meira á það.

Hlakka til að sjá ykkur á áróðursdaginn og hvet ykkur til að setja x við Guðrúnu næstkomandi miðvikudag!


Kolfinna Frigg Sigurðardóttir

Sælir slæmir.

Þegar ég fæddist vissi ég ekki mikið, en ég vissi eitt, að ég yrði að fara í MA. Þar finnur maður allt sem maður þarf...Skemmtilegt nám, fólk og frábært félagslíf.

Ég hef alltaf verið mjög virk í félagslífi skólans, allt frá fyrsta degi og vil ég nota reynslu mína á félagslífinu til að hafa enn meiri áhrif.

Þess vegna býð ég mig fram í embætti Eignarstjóra Hugins árið 2017-2018.

Eignarstjóri sér um fjáraflanir, samninga og eignir skólafélagsins ásamt fleiru. Ég tel mig hæfa til að sinna þessu starfi vel. Ég er metnaðarfull, hugmyndarík og góð í samskiptum en það er góður eiginleiki þegar kemur að samningsgerð. Og eins og flestir vita… Góðir samningar= fleiri gleðidagar og skemmtanir. Kæru samnemendur, þið getið treyst á mig. Ég mun gera allt til þess að gera skólagöngu ykkar eftirminnilega. Ég hvet ykkur í að setja X við Kolfinnu í Eignarstjóra (Erus Pactum)!Harpa Lind Þrastardóttir

Kæru menntskælingar!

Harpa Lind Þrastardóttir heiti ég og býð mig fram í embætti Erus Pactum, eignarstjóra fyrir komandi skólaár. Þetta starf felur í sér mikla sumarvinnu svo sem samningarvinnu. Ég tel mig hafa mikinn tíma til þess að vinna að þessu í sumar og kosturinn við mig er að ég bý allann ársins hring á Akureyri svo ég get hit samstarfsmenn okkar hvenær sem er og haft góða eftirfylgni í samningarviðræðum. Samstörfin eru mikil og mjög fjölbreytt og því tel ég mig vera réttu manneskjuna í starfið. Ég er mjög opin, mettnaðarfull, skynsöm og mjög skipulögð manneskja.

Ég tel mig geta gert þitt næsta skóla ár, jú “þitt” að skemmtilegasta skólaári lífs þíns.

Settu X við Harpa Lind sem Eignarstjóra og þú átt von á góðu skólaári.

h. Presidium discipulus / Forseti hagsmunaráðs


Una Magnea Stefánsdóttir

Heil og sæl!

Ég ber nafnið Una Magnea Stefánsdóttir og býð mig fram til Forseta Hagsmunaráðs þetta árið. Undanfarin þrjú ár í MA hef ég notið mín í tætlur hvort sem það er að skipuleggja kvöldvökur, leika frelsisstyttu í LMA eða koma fólki saman í MakMA í þeirri fjölbreyttu auðlind sem félagslífið okkar er. Því er það mér efst á huga að viðhalda henni þar sem hún er jú ekki algerlega sjálfbær frekar en svo margt í heiminum. Nei félagslífinu þarf að viðhalda með góðum og reglulegum undirbúningi svo að ekkert skerðist og allt gangi eins og í sögu. Hagsmunir nemenda liggja þó ekki einungis í félagslífinu heldur einnig í námi og með innleiðingu þriggja ára kerfis er margt sem þarf að endurskoða og breyta fyrir komandi kynslóðir nemenda.

Þetta verk krefst mikillar vinnu en ég hef fulla trú á að með minni heilögu þrenningu: áhuga, tíma og dugnaði hafi ég það sem þarf til að standa vörð um hagsmuni nemanda hvort sem það er í námi eða leik.Bergþóra Huld Björgvinsdóttir

Kæru MA-ingar, nú er komið að þessum tíma ársins, FRAMBOÐUM!

Geggjaður en samt sem áður stressandi tími fyrir marga, ef ekki flesta því nú kjósum við fólkið sem að við teljum hæfast til þess að halda utan um félagslífið okkar hér í MA á næsta skóla ári.

Það er mikilvægt að fólkið sem við veljum sé tilbúið að takast á við þau fjölmörgu verkefni sem Huginsstjórn ber að leysa. Þess vegna gef ég kost á mér í embætti forseta Hagsmunaráðs. Ég tel mig vera góðan kost í þessa stöðu.

Í fyrsta lagi hef ég brennandi áhuga að því að vinna fyrir hönd allra nemenda í MA að þeirra hagsmunum.

Í öðru lagi hef ég töluverða reynslu af vinnu við félagsmál unglinga enda hafa þau verið stór partur af mér alveg frá því í barnaskóla, mig langar alltaf að taka þátt í öllu.

Í þriðja lagi á ég mjög auðvelt með samskipti og elska að kynnast nýju fólki og ræða málin.

Sem forseti Hagsmunaráðs myndi ég leggja mig alla fram við að vera aðgengileg og vera til staðar ef einhverjum finnst vera brotið á sér. Okkur á öllum að líða vel saman innan veggja skólans. Þið skiptið öll máli.

Settu X við Bergþóru í Forseta Hagsmunaráðs og búðu þig undir geggjað skólaár!Diljá Ingólfsdóttir

Heil og sæl kæru MAingar!

Ég heiti Diljá Ingólfsdóttir og er að bjóða mig fram í embætti forseta hagsmunaráðs Huginsstjórnar næstkomandi skólaárs.

Ég hef alltaf heillast af félagslífinu hér í MA eða frá því ég tróð mér í gegnum hummgöngin góðu og þetta ævintýri byrjaði. Ég er metnaðarfull, hress og jákvæð stúlkukind sem finnst ekkert leiðinlegra en þegar brotið er á mér og fólkinu í kringum mig. Hagsmunaráð er mjög mikilvægt ráð hér í skólanum og á það að vera traust og sýnilegt fyrir alla. Ég vil geta verið rödd ykkar og haft sem mestu áhrif á bæði skólastarfsemina og félagslífið hér í MA. Ég er ung skólastelpa með stór markmið og mikla jafnréttiskennd og vil ég standa vörð um þína hagsmuni og gera skólaárið sem best.

Settu X við Diljá í forseta hagsmunaráðs!

i. Ritstjóri MuninsAron Elí Gíslason

Ég, Aron Elí Gíslason býð mig hér með fram í Ritstjóra Munins.

Muninn hefur verið á sama róli síðastliðinn ár og finnst mér tímabært að þar fari að koma breyting. Ég er tilbúinn að leggja mig allan fram við að hressa upp á blaðið og lífga upp og virkja félagið sjálft.

Vefsíða verður virk allt árið þar sem allt sem tengist skólanum og meira til mun koma fram. Einnig munu vera starfræktir mánaðarlegir sjónvarpsþættir þar sem farið verður yfir skólalífið frá A til Ö. Auk þess mun að sjálfsögðu koma út fjölbreytt blað í lok hverrar annar.

Ef þú vilt virkja Muninn setur þú X - við Aron í Ritstjóra.

Með bestu kveðju Aron Elí, 3.XEdda Sól Jakobsdóttir

ATH FRÍAR PIZZUR!

Kæru samnemendur, kvöldvökurnar, skemmtinefndin og fríu pizzurnar voru snilld en ég kveð það verkefni með sól í hjarta og langar mig til að takast á við nýtt og krefjandi verkefni með bros á vör. Ritstýra Munins.

Ég treysti mér 120% til þess, treystir þú mér?

Mig langar til að setja nýjan & ferskan blæ á Muninn og nota mína persónutöfra til að ná til sem flestra lesenda. Mitt helsta markmið er að gera þig spennta/n fyrir skólablaðinu og með þínu atkvæði kemst ég nær því markmiði!

Settu X- við Eddu Sól í ritstýru Munins.Jörundur Guðni Sigurbjörnsson

Ég heiti Jörundur Guðni Sigurbjörnsson og er nemandi í 2.A. Mig hefur lengi langað að taka meiri þátt í því félagsstarfi sem fer fram innan veggja Menntaskólans á Akureyri. Mér fannst því tilvalið að bjóða mig fram í þessum kosningum. Samt sem áður vildi ég ekki bjóða mig fram í hvað sem er og eftir að hafa skoðað framboðslistann vissi ég að ein staða ætti vel við mig, staða ritstjóra Munins. Ég hef mjög gaman af skrifum og alltaf haft annað augað á þessari stöðu en verið á báðum áttum er kom að því að bjóða mig fram. Nú hef ég loksins látið að því verða. Sú manneskja sem ber titilinn formaður skólablaðsins sinnir ábyrgðarstarfi og mun ég leggja mig allan fram sem ritstjóri verði ég kjörinn. Ég legg áherslu á sköpun, gleði, gagnrýna hugsun og húmor í mínu lífi því allt eru það hlutir sem hjálpa okkur að takast á við raunveruleikann. Ég er þakklátur fyrir að vera í skóla þar sem tækifærin koma á hverju strái og nóg er af nemendum sem eru tilbúnir til þess að halda uppi þeim heiðri, frábæra anda og samhug sem hefur ávallt fylgt nemendum skólans. Ég vil vera partur af því félagsstarfi sem er einkennandi fyrir Menntaskólanum á Akureyri og gef því kost á mér í þessa stöðu.

j. Fulltrúar tilvonandi annars, þriðja og fjórða bekkjar í Hagsmunaráð

Tilvonandi fulltrúi annars bekkjarDaði Már Jóhannsson

Ég heiti Daði Már Jóhannsson og er í 1.I og ég býð mig fram til embættis fulltrúa annars bekkjar í Hagsmunaráði. Ég hef mikinn áhuga á félagslífi skólans og langar til þess að taka þátt í hagsmunabaráttu nemenda. Ég hef þurft að takast á við ýmsar áskoranir sem munu nýtast mér í starfi. Sem dæmi bjó ég í Noregi í þrjú ár þar sem ég aðstoðaði m.a. við rekstur á kaffihúsi og bar og get ég nýtt mér margt þaðan, meðal annars að tala norsku (samt aðallega bara til að fylgjast með Skam á réttum tíma). Ég tel mig geta sinnt starfinu vel þar sem ég er metnaðarfullur og drifinn.Sólrún Svava Kjartansdóttir

Sólrún Svava Kjartansdóttir heiti ég og er að bjóða mig fram sem fulltrúa tilvonadi annars bekkjar í hagsmunaráð. Ég er með mikla réttlætiskennd og því mun ég leggja mig alla fram í starfinu og sinna því með ánægju. Ég hef alla tíð haft gaman af því að vinna með og kynnast nýju fólki og ég tel að hagsmunaráð verði fullkominn vettvangur til þess. Þó svo að skólagangan mín verði styttri en eldri nemenda skólans þá ætla ég að nýta hana til fulls, t.d. með því að bjóða mig fram í hagsmunaráð og taka þátt í ýmsum uppbyggjandi störfum innan skólans.

Tilvonandi fulltrúi þriðja bekkjarIngibjörg Ósk Ingvars

Komiði sæl og marg blessuð!

Ingibjörg heiti ég og er að bjóða mig fram sem fulltrúa tilvonandi þriðjabekkjar í hagsmunaráð. Ég er 18 ára nemandi í 2. B og kem frá Húsavík, ég er á Tungumála og félagsgreinasviði og er virkilega skipulögð, vinnusöm, samviskusöm og ákveðin í öllu sem ég tek mér fyrir hendur.

Á skólaárinu sem nú er senn að ljúka var/er ég fulltrúi annarsbekkjar í Hagsmunaráði og var sú reynsla góð og mun svo sannarlega nýtast mér vel sem fulltrúi ykkar aftur á næsta ári. Ég er félagslynd, með mikla fullkomnunaráráttu og á auðvelt með að vinna með fólki.

Öll erum við nemendur hér við skólann og vil ég fyrir ykkur nemendur góðir að hagsmunaráð sé aðgengilegt fyrir ykkur. Einnig vil ég leggja mig alla fram við að hagsmunir ykkar séu verndaðir sem allra best og tel ég mig mjög færa í það starf.

Tilvonandi fulltrúi fjórða bekkjar

k. Formaður Skemmtinefndar og meðstjórnendur úr tilvonandi öðrum, þriðja og fjórða bekk.

FormaðurRagnar Sigurður Kristjánsson

Sælir kæru samnemendur, Ragnar Sigurður heiti ég og er nemandi í 3.A á sögukjörsviði. Allt frá því að ég hóf nám í MA, hef ég notið þess fjölbreytta félagslífs sem að skólinn hefur uppá að bjóða. Kvöldvökurnar spila þar stóran þátt, þar sem að þar koma nemendur úr öllum bekkjum saman, taka sér frí frá öðru sem þeir eru að gera og við sameinumst í því að hafa gaman eina kvöldstund.

Ástæðan fyrir því að ég hef ákveðið að bjóða mig fram í formann skemmtinefndar er sú að ég tel mig búa yfir því sem þarf til að sinna því verki vel og vandlega. Ég er mjög skipulagður og legg mig ávallt fram við það sem ég tek mér fyrir hendur. Ég hef mikinn áhuga á því að starfa í tengslum við félagslífið í MA, og tel að skipulagning og umsjón með okkar frábæru kvöldvökum sé réttur staður fyrir mig. Það þarf að halda því verki sem að skemmtinefnd síðasta árs vann áfram, með það í huga að gera kvöldvökurnar fjölbreyttari og þannig að sem flestir geti tekið þátt. Einnig mun ég beita mér fyrir því að sem flestir geti komið með hugmyndir að leikjum eða örðu skemmtilegu sem hægt er að gera á kvöldvökum.

Ef þú, kæri samnemandi, treystir mér til að sinna þessu verki sómasamlega, þá yrði ég afskaplega glaður ef að þú settir X við Ragnar í formann skemmtinefndar.Haukur Örn Valtýsson

Hæhæ,

Haukur Örn heiti é og býð mig fram í stöðu formanns skemmtinefndar. Ég hef mikla reynslu af veisluhöldum og hef ég meðal annars starfað sem veislustjóri á árshátíð Túnþökusölu Nesbræðra.


Ingibjörg Ósk Ingvars

Kæru MA-ingar !

Ingibjörg heiti ég og er að bjóða mig fram sem formann skemmtinefndar skólaárið 2017-2018.

Ég er 18 ára nemandi í 2. B og kem frá Húsavík, ég er á Tungumála og félagsgreinasviði og er ég vinnusöm, dugleg, ákveðnari en allt sem ákveðið er og metnaðarfull í öllu sem ég tek mér fyrir hendur.

Ég er félagslynd, með mikla fullkomnunaráráttu, á auðvelt með að vinna með fólki og hugmyndaflugið er eitthvað sem alls ekki vantar! Félagslífið í MA er eitt af mörgum púsluspilum sem gerir þennan frábæra skóla að því sem hann er.

Ég er ákveðin í því að hafa næsta skóla ár skemmtilegt og stútfullt af allskonar skemmtunum. Það er mjög auðvelt að plata mig í allskonar rugl og hlakka ég til að sjá um að plana og skipuleggja kvöldvökurnar og gera mitt allra besta og taka þetta verkefni að mér. 

Tilvonandi fulltrúi annars bekkjarHelga Rún Jóhannsdóttir

VILT ÞÚ HAFA NÆSTA SKÓLAÁR FULLT AF VIÐBURÐUM OG SPRELLI?

Til að fylgja því eftir þarf létta, ljúfa og káta manneskju sem ég er og get lofað að sinna félagslífinu af fullri alúð. Kæru samnemendur, ég er að bjóða mig fram í skemmtinefndina og langar að sjá til þess að næsta skólaár verði stútfullt af skemmtilegheitum. Ég er botnlaus uppspretta af rugli og sprelli og hef það í forgangi að hafa gaman í lífinu.

X- Helga í skemmtó !!!!


Helgi Björnsson

Jú góðann og blessaðann daginn, ég Helgi "fokking" Bjöss býð mig fram í embætti meðstjórnanda skemmtinefndar fyrir hönd tilkomandi annars bekkjar næsta ár. Félagslíf menntaskólans á Akureyri er mér mjög kært og mun ég gera mitt besta til að sjá til þess að það verði sem skemmtilegast fyrir alla.

Mbk, Helgi Björnsson (Reiðmaður vindanna)

Tilvonandi fulltrúi þriðja bekkjarRakel Ósk Jóhannsdóttir

Hæhæ !

Ég heiti Rakel Ósk og er að bjóða mig fram sem fulltrúa tilvonandi þriðjabekkjar í meðstjórnanda skemmtinefndar. Ég er 17 ára nemandi í 2. B og kem úr Aðaldal, ég er á Tungumála og félagsgreinasviði og er skipulögð og mjög vinnusöm.

Ég er félagslynd og á auðvelt með að vinna með fólki. Eins og við öll viðum eru kvöldvökurnar okkar mjög skemmtilegar og vil ég fyrir ykkur að kvöldvökur hladi áfram að vera skemmtilegar og viðburðaríkar. Ég vil leggja mig alla fram við að hafa næsta skóla ár eins skemmtilegt og það sem nú er að líða ef ekki betra.

Tilvonandi fulltrúi fjórða bekkjarÆsa Skúladóttir

Ég heiti Æsa Skúladóttir og ætla að bjóða mig fram sem meðstjórnanda tilvonandi 4. bekkjar í skemmtinefnd.

Ég hef mikinn áhuga á öllu skemmtilegu og held því að þessi staða henti mér vel. Ég er jákvæð, dugleg, hugmyndarík og á auðvelt að vinna með öðrum. Ég á líka auðvelt með að koma fram fyrir framan fólk sem getur verið mikill kostur á kvöldvökum :)

l. Fulltrúar tilvonandi annars, þriðja og fjórða bekkjar í Miðstjórn Hugins

Tilvonandi fulltrúi annars bekkjar
Patrekur Atli Njálsson

Ég heiti Patrekur Atli Njálsson, er í 1.I og ég býð mig fram í embætti fulltrúa tilvonandi annars bekkjar í miðstjórn Hugins. Félagslíf MA er mér afar mikilvægt og sérstaklega á þessum breytingatímum. Því langar mig til þess að leggja mitt af mörkum til að halda félagslífinu sterku. Þessi staða hefur nafnið mitt á henni þar sem PABBI MINN ER ÞINGMAÐUR! Nei djók (samt ekki hehehe).

Tilvonandi fulltrúi þriðja bekkjarSigurlína Jónsdóttir

Sæl, ég heiti Sigurlína og er í 2. Bekk. Mig langar að bjóða mig fram í fulltrúa tilvonandi þriðja bekkjar í miðstjórn Hugins.

Mig langar að bjóða mig fram í þetta því að mer langar til þess að vera virkari i félagslífi MA og leggja mitt af mörkum til þess að hafa félagslífið sem best hérna og ég tel mig hafa alla þá kosti sem þarf til þess að vera i þessu ráði. 

Tilvonandi fulltrúi fjórða bekkjar

m. Fulltrúar tilvonandi annars, þriðja og fjórða bekkjar í Umhverfisnefnd

Tilvonandi fulltrúi annars bekkjar


Sólbjört Pálsdóttir

Ég heiti Sólbjört Pálsdóttir og langar mig að bjóða mig fram í umhverfisnefn. Ég hef mikinn áhuga á umhvefinu og hvað er að gerast við jörðina þessa stundina. Tel ég mig geta betrum bætt margt í tengslum umhverfismál Menntaskólans og langar mig að vekja athygli á mörgu sem tengist því á skemmtilegan og fræðandi hátt. Það er flott að flokka og hugsa um jörðina okkar.

Tilvonandi fulltrúi þriðja bekkjar

Tilvonandi fulltrúi fjórða bekkjarSunna Guðrún Pétursdóttir

Sunna Guðrún Pétursdóttir heiti ég og er hér með að bjóða mig fram í umhverfisnefnd Menntaskólans á Akureyri. Ég er á náttúrufræðilínu í 3.X, er frá Akureyri og æfi handbolta með Ka/Þór.

Ástæðan fyrir því að ég er að bjóða mig fram í þessa nefnd er sú að ég hef áhuga á umhverfismálum og vil taka þátt í því að bæta úr umhverfisvandamálum okkar og afleiðingu þeirra. Ég tel að allt sem við gerum hafi áhrif á umhverfið okkar, því finnst mér mikilvægt að við vitum hvað við eigum að gera til að bæta umhverfið. Því er tilvalið að hafa þessa umhverfisnefnd til þess að fræða um þetta málefni og koma umhverfismálum hér í betra stand. Ég er tilbúin að leggja mig fram í að laga það. Síðastliðin 2 ár hef ég verið í valáfanga á vegum Erasmus og erum við búin að vera að rannsaka Sjálfbærni milli landa og ýmislegt tengt umhverfismálum. Ég er því ágætlega inni í málum sem snúa að umhverfi.

Markmiðin mín með veru í þessari nefnd eru að ég hef tekið eftir því að flokkun hjá MA-ingum er ekki alveg í nógu góðu standi og vil taka þátt í að bæta það. Einnig vil ég stuðla að því að dregið verði úr notkun á umhverfismengandi atriðum s.s. að farið verði sparlega með vatn, ljós og fleira. En meginmarkmiðið er að taka þetta á jákvæðninni.

n. Formaður LeikfélagsinsSoffía Stephensen

Kæru samnemendur, ég heiti Soffía Stephensen og býð mig fram til formanns leikfélags Menntaskólans á Akureyri skólaárið 2017-2018.

Alveg síðan ég man eftir mér hef ég verið heilluð af leikhúslífi. Ég var send í tónlistarnám, æfði dans, fór á leiklistarnámskeið og það allra skemmtilegasta, fór ég á eins margar leiksýningar og ég hafði tök á. Ég hef eytt miklum tíma í leikhúsum landsins og fengið að kynnast fólkinu þar. Ég hef þannig náð að mynda mér þekkingu og tengsl inn í leikhúsin og ætla ég mér að nýta þau og búa til ný og spennandi tækifæri fyrir ykkur kæru samnemendur. Það væri mér mikill heiður að leiða leikfélagið áfram á sínu blómaskeiði og er mitt markmið að taka skrefið lengra og byggja á þeim trausta grunni sem þegar hefur verið byggður á síðust árum.Bernódus Óli Einarsson

Heil og sæl kæru samnemendur.

Bernódus Óli heiti ég og gef kost á mér í stöðu formanns Leikfélagsins fyrir næsta skólaár.

Síðastliðin tvö ár hef ég tekið þátt í LMA og núna síðasta árið í stjórn félagsins. Að taka þátt í félaginu er eitthvað það skemmtilegasta sem ég geri, hvort sem það er bara að vera í kringum fólkið í félaginu og eignast sína bestu vini, skipulagning eða bras- og smíðavinna til 5 á nóttunni þá nýt ég þess. Ég finn mikla ástríðu fyrir því að halda áfram að byggja upp þá góðu starfssemi sem við höfum nú þegar í LMA og þessvegna býð ég mig fram í formann Leikfélagsins.

Ég er tilbúinn að leggja mig allan fram í þá stöðu sem formaður LMA er tel mig búa að góðri reynslu frá stjórnarstörfum þessa árs sem má nýta til þess að bæta og gera betur, því það er jú markmiðið, að gera alltaf örlítið betur.

Bernódus Óli, 3.B

o. Formaður MálfundafélagsinsSölvi Halldórsson

Halló

Ég heiti Sölvi Halldórsson og gef kost á mér í embætti formanns málfundafélagsins okkar.

Hlutverk málfundafélagsins er að halda utan um störf Gettu Betur og Morfís liða skólans. Í því felst að sjá um Gettu betur inntökuprófið, að skipuleggja morfísúrtökur og innanskólakeppnir í bæði ræðumennsku og vitsmunum, auk þess sem félagið heldur líka málfundi þegar stemmning er fyrir því t.d. í kringum kosningar.

Ég hef góða reynslu af stjórnarstöðum og fundarstörfum. Ég sat í ritstjórn Munins í 2.bekk og í stjórn femínistafélagsins og í jafnréttisráði í 3.bekk .

Í vetur var ég varamaður  Gettu Betur liðsins og hef sömuleiðis komið að undirbúningi ræðuliðs skólans fyrir Morfískeppnir öll mín ár í skólanum. Ég myndi standa mig vel sem formaður af því ég er tilbúinn að leggja tíma í starfið, ég er skipulagður, duglegur að svara tölvupóstum og flinkur á google drive.

p. Formaður DansfélagsinsSylvía Siv Gunnarsdóttir

Kæru MA-ingar,

Ég heiti Sylvía Siv Gunnarsdóttir og er á þriðja ári. Undanfarið skólaár hef ég setið í stjórn dansfélagsins og langar mig nú að taka næsta skref og gerast formaður félagsins. Mér fannst ótrúlega skemmtilegt að taka þátt í uppsetningu árshátíðaratriðins sem og að endurvekja PríMAbikarinn! Ég hef mikla trú á dansfélaginu okkar og ég ætla mér að sinna þessu starfi með markmið félagsins að leiðarljósi. Hvort sem ykkur finnst gaman að dansa eða einfaldlega bara að njóta glæsilegra dansatriða þá mæli ég með að kjósa mig sem formann dansfélagsins og ég skal lofa geggjuðu dansári!

q. Formaður ÍþróttafélagsinsMargrét Árnadóttir

Kæru samnemendur,

Ég heiti Margrét Árnadóttir og er í 2.bekk á félagsfræði- og tungumálasviði og ætla bjóða mig fram í formann íþróttafélagsins. Ég æfi fótbolta með Þór/KA  en hef mikin áhuga á allskyns íþróttastarfi og mismunandi íþróttagreinum. Ég var í stjórn ÍMA síðastliðinn vetur og hef mikinn áhuga á því að halda áfram og reyna að gera næsta ár enn betra.

r. Tveir fulltrúar nemenda í skólaráðSæunn Emilía Tómasdóttir

Ég heiti Sæunn Emilia Tómasdóttir og er í 1.I. Ég býð mig fram í skólaráð vegna þess að ég hef mikinn vilja fyrir því að skólaganga allra nemenda sé réttlát og skemmtileg. Ég tel mig hæfa til að standa með nemendum, sjá til þess tekið verði tillit til nemenda, skoðunum þeirra og réttlæti. Sérstaklega þar sem margar breytingar hafa orðið í skólanum og huga þarf vel að félagslífi og velgengni nemenda.Hulda Margrét Sveinsdóttir

Heil og sæl

Ég heiti Hulda Margrét og er í 1.F, ég ætla að bjóða mig fram í skólaráð.

Ég hef ágæta reynslu af samskonar starfi þar sem ég var fulltrúi nemenda úr Síðuskóla í skólaráði í 3 ár. Ég er einnig í Ungmannaráði Akureyrar og hef verið í því í 2 ár, ásamt því er ég í Ungmennaráði Menntamálastofnunar.

Ég hef mjög gaman af því að hafa áhrif á samfélagið og umhverfið í kringum mig, ég hef ég mikinn áhuga á að geta haft áhrif á skólann sem ég geng í og geta sagt mínar skoðanir á ýmsum hlutum sem tengjast honum.

s. Einn fulltrúi nemenda í skólanefndKolbrún Sonja Rúnarsdóttir

Kolbrún Sonja heiti ég og er að bjóða mig fram í embætti fulltrúa nemenda í skólanefnd.

Af hverju skólanefnd?

Alla tíð hef ég mikið hugsað um samfélagið í kringum mig og haft gaman að því að hafa áhrif. Því vil ég, fyrir ykkar hönd kæru samnemendur, taka þátt í að efla okkar yndislega skóla.

Ég tel mig vera rétta manneskjan í starfið þar sem ég er óhrædd við að koma skoðunum mínum á framfæri ásamt því að geta hlustað og virt skoðanir annara. Þrátt fyrir að vera aðeins á fyrsta ári í menntaskóla hef ég áður setið fundi og átt þátt í að betrumbæta skólastarfið, og vil ég gjarnan halda því áfram.

t. Tveir fulltrúar nemenda í Jafnréttisráð, einn af hvoru kyni

Kvenkyns fulltrúiFreyja Vignisdóttir

Heil og sæl

Ég heiti Freyja Vignisdóttir og er 17 ára telpa í 1.F. Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í jafnréttisráð. Ástæðan fyrir því er sú að ég hef mikinn áhuga á jafnréttismálum og finnst það skipta miklu máli að opna umræðuna. Mér finnst fátt skemmtilegra en að rökræða og heyra skoðanir annara. Ég tel að bara það að ganga milli bekkja og kynna t.d. hvað feminismi geti haft mikil áhrif. Sérstaklega finnst mér skemmtilegt að halda kynningar og tel mig vera góða í því sérstaklega í því sem ég hef gaman af.Rannveig Katrín Árnadóttir

Ég heiti Rannveig og ég býð mig fram sem fulltrúa nemenda í jafnréttisráð. Fyrir mér er jafnrétti mjög mikilvægt, bæði kynjajafnrétti sem og jafnrétti í víðara samhengi. Ég vil auka jafnrétti milli kynjanna, sérstaklega á viðburðum á vegum skólafélagsins. Ég vil líka reyna að hafa áhrif á umræðu um ólíka hópa, með það fyrir augum að stuðla að minni fordómum og auka jákvæða og upplýsta umræðu um jafnréttismál.

Karlkyns fulltrúi

Sölvi Halldórsson

Ég sat í jafnréttisráði í vetur og það gekk bara rosa vel og mig langar að halda áfram með það góða starf sem þar fór fram :)

u. Einn fulltrúi MA í Samband íslenskra framhaldsskólanema
Símon Birgir Stefánsson

Sæl og blessuð,

Símon Birgir Stefánsson heiti ég og ætla að bjóða mig fram sem fulltrúa MA í Samband Íslenskra Framhaldsskólanema. Ég kynnti mér hlutverk starfsins á síðu félagsins og sá þar að þetta væri starf sem myndi henta mér. Ég er svo til í að hugsa um hagsmuni nemenda í skólanum og að passa uppá að ekki væri brotið á réttindum þeirra. SÍF getur verið tengiliður til stjórnvalda og væri það heiður að geta tekið þátt í því stóra batteríi sem þetta er. Ég geri mér grein fyrir því að þetta fylgir fundum sem taka tíma frá skóla en það hlýtur að vera þess virði:) Sjálfur er ég frekar opin manneskja og er alltaf til í að takast á við ný og krefjandi verkefni.

3 views0 comments
  • Facebook
  • Instagram
Nemendafélag Menntaskólans á Akureyri
Eyrarlandsvegi 28
600 Akureyri